Áhrifa verkfallsins farið að gæta hér á landi

norwegian velar860

Um hádegi í dag hefði vél norska flugfélagsins Norwegian átt að lenda hér á landi. Ekkert verður hins vegar úr því. Um hádegi í dag hefði vél norska flugfélagsins Norwegian átt að lenda hér á landi. Ekkert verður hins vegar úr því og er þetta fyrsta ferð félagsins til Íslands sem felld er niður vegna verkfalls flugmanna Norwegian.
Allan marsmánuð hefur stór hluti flugmanna lággjaldaflugfélagsins Norwegian verið í verkfalli og nær allt flug félagsins innan Skandinavíu hefur legið niðri. Félagið flýgur hingað til lands þrisvar í viku frá Ósló og hingað hefur verkfallið ekki haft áhrif á Íslandsflugið. Á því verður hins vegar breyting í dag því í morgun var ferð félagsins hingað í til lands felld niður. Áður hafði verið gefið út að brottförin til Íslands yrði á réttum tíma.

Snúin staða farþega

Samkvæmt forsvarsmönnum Norwegian hefur verkfallið riðlað ferðaplönum 150 þúsund farþega. Flugfélaginu ber þá skylda til að koma fólki á áfangastað með öðrum leiðum eða endurgreiða miðana. Þeir sem eiga pantað flug með Norwegian til og frá Íslandi í dag fá þá vonandi far með SAS eða Icelandair sem bæði fljúga daglega héðan til Óslóar.
Í lok mars hefst áætlunarflug Norwegian milli Bergen og Keflavíkur.

Sameingin við Ryanair

Langar samningaviðræður forsvarsmanna Norwegian og flugmanna hafa ekki skilað árangri og hafa viðsemjendur ekki sparað gífuryrðin fjölmiðlum. Miklar vangaveltur hafa einnig verið um hvort Norwegian lifi þessa kjarabaráttu af og í gær flutti sænska blaðið Dagens Industri fréttir af því að eigendur Norwegian gætu neyðst til að gefast upp og jafnvel sameinast írska lággjaldaflugfélaginu Ryanair. Það eru þó talið mjög ólíklegt að sú staða komi upp samkvæmt sérfræðingum í norræna fluggeiranum.