Bretar miklu fjölmennari en Íslendingar í Leifsstöð

kef innritun

Íslenskir farþegar eru ekki lengur stærsti farþegahópurinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Alla vega ekki í febrúarmánuði. Íslenskir farþegar eru ekki lengur stærsti farþegahópurinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Alla vega ekki í febrúar því annað árið í röð innrita fleiri Bretar en Íslendingar sig í flug frá landinu í þeim mánuði.
Þau tíðindi urðu í febrúar í fyrra að Íslendingar voru ekki lengur fjölmennasti hópurinn á Keflavíkurflugvelli. Alla vega ekki síðan að Ferðamálastofa fór að telja og flokka farþega eftir þjóðernum árið 2003. Flesta mánuði eru Íslendingar langstærsti farþegahópurinn í flugstöðinni en í febrúar á síðasta ári voru bresku farþegarnir 22.820 talsins en Íslendingarnir 21.261. Í febrúar sl. breikkaði bilið töluvert því þá fóru 29.250 Bretar í gegnum flugstöðina en 23.400 íslenskir farþegar. Um níu þúsund Bandaríkjamenn flugu héðan og voru þeir þriðji fjölmennasti hópurinn. Hafa ber í huga að farþegar sem aðeins millilenda á Keflavíkurflugvelli eru ekki taldir með hjá Ferðamálastofu.

Fjórði hver farþegi með íslenskt vegabréf.

Það fóru ríflega 94 þúsund farþegar um innritunarsal Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar í síðasta mánuði og voru Íslendingar fjórðungur farþega. Á árunum fyrir hrun var hlutfall heimamanna í farþegarhópnum í febrúar hins vegar um sextíu prósent eins og sjá má á línuritinu hér fyrir neðan.