Gistingin hefur ekki verið dýrari í London í áratug

london oxfordstraeti

Gistiaðstaða og uppihald dýrara fyrir íslenska túrista í Bretlandi en flugið þangað ódýrara. Hótelstjórar í London eru brattir þessa dagana á meðan ferðamenn verða að sætta sig við að borga meira fyrir herbergin. Gisting og uppihald í Bretlandi kostar íslenska túrista meira núna en á sama tíma í fyrra en flugið er ódýrara.
Í síðasta mánuði voru nærri átta af hverjum tíu hótelherbergjum í Lundúnum bókuð. Að jafnaði borguðu gestirnir 156 pund fyrir nóttina sem jafngildir 32 þúsundum króna. Hótelverðið í febrúar hefur ekki verið eins hátt í áratug samkvæmt frétt DN. Til samanburðar voru 83 prósent herbergja í Reykjavík frátekin í janúar en Hagstofan hefur ekki birt tölur fyrir febrúar.

Dýrara fyrir Íslendinga

Breska pundið hefur styrkst um meira en tíund gagnvart íslensku krónunni í síðastliðið ár og það má því segja að íslenskur ferðamaður í Bretlandi borgi nokkru meira fyrir uppihald og gistingu á Bretlandseyjum í dag en fyrir ári síðan. Á móti kemur að fargjöldin til London hafa lækkað samkvæmt niðurstöðum nýjustu verðkönnunar Túrista
Það er flogið til átta breskra borga frá Keflavíkurflugvelli allt árið um kring og hefur ferðunum þangað fjölgað mjög hratt síðustu ár og eru Bretar orðnir langfjölmennasti ferðamannahópurinn hér á landi. Sérstaklega yfir vetrarmánuðina og í febrúar sl. innrituðu fleiri Bretar en Íslendingar sig í flug á Keflavíkurflugvelli.

Sparnaðarráð fyrir þá köldu

Samkvæmt fréttum má búast við því að hótelverð haldist hátt í London í ár og ein ástæðan þess er sú að Bandaríkjamenn verða á faraldsfæti þar sem dollarinn hefur verið á flugi undanfarna mánuði. Þeir lesendur sem eru á leiðinni til London á næstunni og þora að bíða fram á síðustu stundu með að bóka gistingu geta í mörgum tilfellum fengið hótelherbergi með vænum afslætti (sjá hér). En það er ekki víst að allir séu tilbúnir til þess háttar.