Ibiza í Dubai

dubai dreamisland

Það er gert ráð fyrir stanslausu partíi á lítilli manngerðri eyju rétt við Dubai. Veislan hefst eftir þrjú ár. Það er gert ráð fyrir stanslausu partíi á lítilli manngerðri eyju rétt við Dubai. Veislan hefst eftir þrjú ár.
Þeir grípa til ýmissa ráða til að lokka til sín ferðamenn furstarnir í Dubai. Lygileg háhýsi, ævintýraleg hótel og innanhús skíðahöll er meðal þess sem þeir hafa reist til að efla ferðaþjónustu svæðisins. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa því árlega heimsækja ríflega tíu milljónir ferðamanna þessa sérstöku eyðimerkurborg. Markmið furstanna er víst að gera hana að vinsælasta ferðamannastað heims og verður verkefnið meðal annars fjármagnað með gistináttaskatti. En meira að segja í Dubai eru lagðar sérstakar álögur á hótelgesti.

Þurfa ekki leyfi fyrir víndrykkju

Liður í því að auka vinsældir Dubai er að breyta 375 þúsund fermetra manngerðri eyju, skammt frá Dubai, í einskonar partísvæði sem hlotið hefur heitið Draumaeyjan eða Dream Island. Hafa forsvarsmenn verkefnisins spænsku eyjuna Ibiza sem fyrirmynd samkvæmt frétt Daily Mail. Í frétt blaðsins segir að pláss verði fyrir um tuttugu þúsund veislugesti á eyjunni á hverjum tíma og þar verða engar skorður settar á áfengisdrykkju gestanna. En í dag er það víst þannig að þeir sem heimsækja Dubai verða að hafa sérstakt leyfi fyrir því að fá sér í glas. Á Draumaeyjunni verða fimm hótel, hundrað barir og veitingastaðir, tveir risastórir næturklúbbar auk fjögurra strandklúbba.