Íslandsflug Lufthansa fær góðar undirtektir

lufthansa 319

Það eru ekki eingöngu Þjóðverjar sem ætla að nýta sér flugið hingað því Ísraelar og Frakkar eru einnig duglegir að taka frá sæti. Stærsta flugfélag Þýskalands opnar nýjar flugleiðir til Íslands í vor og bókunarstaðan er góð. Það eru ekki eingöngu Þjóðverjar sem ætla að nýta sér flugið hingað því Ísraelar og Frakkar taka einnig frá sæti í vélum þýska flugfélagsins.
Síðustu ár hefur Lufthansa boðið upp á áætlunarflug hingað til lands frá þýsku borgunum Dusseldorf, Hamborg og Berlín. Dótturfélagið German Wings hefur hins vegar tekið þessar flugleiðir yfir og í staðinn hyggst Lufthansa fljúga hingað frá Frankfurt og Munchen. Það er í fyrsta skipti sem félagið flýgur hingað frá þessum tveimur helstu starfsstöðvum sínum.

Stefna á allt árið

Fyrst um sinn mun Lufthansa fljúga héðan þrisvar sinnum í viku til Frankfurt og á sunnudögum til Munchen yfir sumarið. Forsvarmenn Lufthansa hafa hins vegar uppi áform um að starfrækja þessar flugleiðir allt árið um kring. Í dag er Icelandair eina félagið sem býður upp á ferðir til þessara borga allt árið en Airberlin flýgur héðan til Munchen yfir aðal ferðamannatímabilið.

Flestir farþegar á leið til Íslands

Jómfrúarferðir Lufthansa eru á dagskrá í maí og segir Martin Riecken, talsmaður Lufthansa, að nú þegar hafi meira en þrjú af hverjum fjórum sætum selst í margar ferðir. Það eru aðallega Þjóðverjar, Frakkar og Ísraelar á leið til Íslands sem hafa bókað en síðustu vikur hefur bæst við pantanir frá farþegum sem hefja ferðalagið hér á landi að sögn Riecken.  
Lufthansa er stærsta flugfélag Evrópu og flýgur meðal annars til 190 áfangastaða frá flugvöllunum í Frankfurt og Munchen.