Íslensku flugfélögin eru ein í Boston

boston stor

Flugfélög frændþjóðanna bjóða ekki upp á áætlunarflug til og frá Logan flugvelli við Boston. Flugfélög frændþjóðanna bjóða ekki upp á áætlunarflug til og frá Logan flugvelli við Boston. Íslenskir flugfarþegar geta hins vegar valið úr allt að fjórum ferðum á dag til borgarinnar.
WOW air fór jómfrúarferð sína til Boston í Bandaríkjunum á laugardaginn og mun félagið bjóða upp á sex ferðir í viku til borgarinnar allt árið um kring. Þar með geta farþegar hér á landi valið á milli allt að fjögurra brottfara á dag til Boston því Icelandair flýgur þangað tvisvar til þrisvar á hverjum degi.
Það er meiri úrval en farþegar á stærstu flugvöllum Evrópu hafa úr að moða. Samkvæmt athugun Túrista er flogið allt að þrisvar á dag til Boston frá París en tvisvar frá Amsterdam, Frankfurt og Dublin. Flestar eru ferðirnar frá Heathrow flugvelli eða sex á dag. Heathrow er stærsta flughöfn Evrópu og fóru ríflega 70 milljónir farþega um völlinn á síðasta ári. Í Flugstöð Leifs Eiríkssonar var farþegafjöldinn í fyrra 3,9 milljónir.

Hvað gerir SAS?

Icelandair hefur lengi verið eina norræna flugfélagið með starfsemi í Boston og nú hefur WOW air bæst þar við. Orðrómur hefur verið á kreiki um að SAS ætli að koma sér þar fyrir í haust og bjóða upp á ferðir frá Ósló en það hafa forsvarsmenn skandinavíska félagsins ekki viljað staðfesta. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem flugfélög frændþjóðanna eru orðuð við borgina því fyrir tveimur árum lét talsmaður Finnair hafa það eftir sér að félagið væri að íhuga áætlunarflug til Boston en úr því varð ekki.
Í síðasta mánuði var Boston í fimmta til sjötta sæti yfir þær borgir sem oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli.