Nánast hvert sæti skipað hjá Icelandair og WOW air

saeti icelandair wow

Aldrei áður hefur sætanýtingin hjá íslensku flugfélögunum tveimur verið jafn góð í febrúar eins og nú. Aldrei áður hefur sætanýtingin hjá íslensku flugfélögunum tveimur verið jafn góð í febrúar eins og nú. Mun hærra hlutfall sætanna hjá WOW air var skipað á seinni hluta síðasta árs en á þeim fyrri.
Það voru sennilega sárafáir farþegar Icelandair og WOW air sem gátu teygt úr sér yfir heila sætaröð í síðasta mánuði og miðjusætið hefur ekki nýst mörgum fyrir handfarangur. Flugvélar félaganna tveggja hafa nefnilega aldrei áður verið eins þéttsetnar í febrúarmánuði. Hjá Icelandair voru 77,7 prósent sætanna skipuð en á sama tíma í fyrra var hlutfallið 4,5 prósentustigum lægra, að því kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Sætanýting WOW air í síðasta mánuði var 88,5 prósent samkvæmt upplýsingum frá Skúla Mogensen, forstjóra WOW air. Er það jafnframt besta nýting félagsins í febrúarmánuði. WOW air fór jómfrúarferð sína í lok maí árið 2012 og þetta er því þriðji febrúarmánuðurinn sem félagið starfar. 

Nýting WOW batnaði mjög á seinni hluta ársins

Á fyrri helmingi síðasta árs voru að jafnaði 76 prósent sætanna í vélum WOW air bókuð en á seinni hluta ársins var nýtingin 91 prósent. Skúli Mogensen segir þetta endurspegla þær grundvallarbreytingar sem gerðar hafi verið síðastliðið vor með að fara alla leið í lággjaldastefnunni. Í viðtali við Viðskiptablaðið sl. haust sagði forstjórinn að grunnhugmyndafræðin að baki þeirri stefnu væri að selja fyrst og fremst í gegnum netið, ekki vera með starfsemi út í heimi og að viðskiptavinurinn greiði eingöngu fyrir það sem hann notar en borgi sérstaklega fyrir aukaþjónustu. „Horfa þarf á flugflota og sætanýtingu sem er gríðarlega mikilvægt til að lækka flugrekstrarkostnað,“ sagði Skúli jafnframt.
SMELLTU TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ Á GISTINGU ÚT Í HEIMI