Fargjöld Delta vega upp á móti háum dollara

sf ny

Bandaríska flugfélagið býður óvenjulega ódýra flugmiða í maí og júní. Íslenskur ferðamaður í Bandaríkjunum borgar nærri fjórðungi meira fyrir uppihaldið í dag en á sama tíma í fyrra. Það er hins vegar leit að ódýrari fargjöldum til Bandaríkjanna en þeim sem eru í boði núna. 
Fyrir ári síðan kostaði einn bandarískur dollari 113 íslenskar krónur en í dag er hann á 139 krónur. Hækkunin nemur um 23 prósentum og svona breytingar fæla marga ferðamenn frá því gisting og uppihald hækkar því sem gengisbreytingunni nemur. Dollarinn hefur styrkst ennþá meira í samanburði við evru og það er því ekki víst að margir Evrópubúar séu að velta fyrir sér Bandaríkjareisu á næstunni. Það kann að vera ástæða þess að núna má finna óvenju ódýra farmiða héðan til Bandaríkjanna með Delta flugfélaginu.

New York ódýrust

Delta hefur flogið til Íslands frá JFK flugvelli í New York síðustu sumar. Í ár hefst Íslandsflug félagsins mánuði fyrr en vanalega og samkvæmt athugun Túrista þá er mikið úrval af lágum fargjöldum hjá félaginu í byrjun sumars. Þó aðallega ef dvalið er úti í að lágmarki eina viku. Þeir sem í þannig ferð geta fundið far með Delta til New York á 52.855 krónur í maí og júní á mörgum dagsetningum. Fyrir styttri ferðir kostar flugið 70.455 krónur í mörgum tilfellum. Hjá Icelandair má fá far til New York og tilbaka á 64.445 krónur í maí og júní en það verð er aðeins í boði nokkra daga. 

Bjóða betur en þau íslensku til Boston og Washington

Í vor hefst áætlunarflug WOW air til Boston og Washington en Icelandair hefur um langt árabil flogið til beggja þessara borga. Það kostar hins vegar í mörgum tilfellum minna að fljúga heðan með Delta til Boston og Washington, með millilendingu í New York, en beint áfangastað með íslensku flugfélögunum. Alla vega fyrri hluta maí þegar bandaríska flugfélagið býður farið á 53.625 krónur til borganna tveggja. Farþegar Delta borga sem sagt aðeins 770 krónur aukalega fyrir flugið frá New York til Boston eða Washington.
Hjá WOW air er suma daga hægt að finna ódýrari fargjöld en hjá Delta en ef innrituð er ein taska þá er lægsta farið með WOW orðið hærra en það sem Delta býður best. Lægstu fargjöld Icelandair til Boston og Washington eru á bilinu 72 til 76 þúsund.
Þeir sem eru til í að millilenda í New York á leið í sólina í Orlandó komast þangað fyrir 66.525 krónur í maí með Delta en á sama tíma eru ódýrustu fargjöld Icelandair til Flórída mun hærri. 

Til Las Vegas, San Francisco eða Los Angeles fyrir 85 þúsund

Alla jafna kostar ekki minna en 100 þúsund að fljúga héðan til stórborganna Los Angeles og San Francisco. Í dag býður Delta hins vegar flug þangað frá Keflavík, með millilendingu í New York, á 84.625 krónur og eins er hægt að komast til Las Vegas fyrir sömu upphæð. 

Ekki það sama innifalið

Allir farþegar Icelandair á leið til N-Ameríku mega innrita tvær ferðatöskur án þess að greiða aukalega fyrir en hjá Delta er hámarkið ein. Hins vegar þarf ekki að borga fyrir matinn um borð hjá bandaríska félaginu en þeir sem sitja á ódýrasta farrýminu hjá Icelandair greiða fyrir veitingar í föstu formi. Hjá báðum félögum er hægt að taka frá ákveðin sæti sér að kostnaðarlausu. Þeir sem fljúga með WOW air borga aukalega fyrir þessa þjónustu og einnig undir handfarangur sem er þyngri en fimm kíló.
SMELLTU HÉR TIL AÐ GERA VERÐSAMANBURÐ Á HÓTELUM Í BANDARÍKJUNUM OG HÉR FYRIR BÍLALEIGUBÍLA