Margir að spá í Spán

spann strond

Af fréttum að dæma þá fara vinsældir Spánar meðal íslenskra túrista ekki þverrandi. Af fréttum að dæma þá fara vinsældir Spánar meðal íslenskra túrista ekki þverrandi. Framboð á ferðum þangað hefur ólíklega verið meira en það er í ár.
Í lok þessa mánaðar hefjast sumaráætlanir flugfélaganna og þá bjóðast á ný reglulegar áætlunarferðir til meginlands Spánar. Flug WOW air og Primera Air til Alicante hefst fyrir páska og líkur ekki fyrr en í október og það nýta ferðaskrifstofurnar Heimsferðir, Úrval-Útsýn og Vita sér til að bjóða upp á alls kyns pakkaferðir til svæðanna í kringum Alicante. Flugumferð milli Íslands og Kanaríeyja eykst svo þó nokkuð frá og með páskum því þá verður flogið þrisvar í viku til Tenerife. Auk þess er líka flogið til Las Palmas. Í heildina verður því pláss fyrir mörg hundruð farþega í hverri viku í vélunum sem fljúga til Kanaríeyja frá og með vorinu. Þetta er mun meira framboð á sætum en á sama tíma fyrra.

Barcelona fyrr en áður

Höfuðstaður Katalóníu er ein vinsælasta ferðamannaborg heims en þrátt fyrir það hefur framboð á flugferðum þangað frá Keflavíkurflugvelli nær alltaf einskorðast við sumarið. Í ár byrjar spænska lággjaldaflugfélagið Vueling hins vegar vertíð sína hér á landi strax í byrjun maí og WOW air um miðjan þann mánuð. Bæði fyrirtækin gera ráð fyrir að fljúga þangað fram í lok október og yfir sumarið blanda Icelandair og Primera Air sér í samkeppnina um farþega á þessari leið. Í ár verður því úr miklu fleiri ferðum til Barcelona að velja en síðustu ár. Hins vegar er Madrídarflug Icelandair ennþá í föstum skorðum og úr fáum ferðum að velja yfir hásumarið. Til Malaga verður hægt að fljúga beint með Primera Air nokkrum sinnum í mánuði í sumar og út september.

Mallorca á boðstólum á ný

Um langt skeið streymdu íslenskar fjölskyldur í frí til Mallorca. Sólareyjan varð hins vegar of dýr áfangastaður fyrir íslenska ferðalanga árin eftir hrun en í sumar verður á ný boðið upp á fjölda ferða þangað. Ferðaskrifstofurnar Vita, Úrval-Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir eru með Mallorca á boðstólum og Íslendingar verða því aftur sýnilegir í strandbæjunum Santa Ponsa, Sa Coma og Alcudia líkt og á árum áður. Þeir sem vilja heldur fara um eyjuna á eigin vegum geta keypt flugmiða án gistingar hjá ferðaskrifstofunum.

Eins og sjá má þá hefur bæst verulega við úrvalið af Spánarferðum í sumar og áhugavert að sjá hvort þessi þróun haldi áfram á næsta ári. Margir myndu líklega fagna því að geta flogið regluega til Andalúsíu og jafnvel Baskalands yfir sumarið. En áætlunarflug til þessara svæða og vetrarflug til Barcelona gengur sennilega ekki upp nema að Spánverjar sjálfir nýti sér það í miklum mæli. Vélarnar sem fljúga hingað til Alicante og Kanarí eru til að mynda nær eingöngu skipaðar íslenskum farþegum.