Gæti orðið áttunda stærsta flughöfn Norðurlanda

fle 860

Hlutfallslega fjölgaði farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar miklu meira í fyrra en á hinum stóru norrænu flugvöllunum. Hlutfallslega fjölgaði farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar miklu meira í fyrra en á hinum stóru norrænu flugvöllunum. Ef vöxturinn verður áfram svona hraður gæti sá íslenski komist upp fyrir Þrándheim á lista þeirra stærstu.  
Síðustu ár hefur farþegum á Keflavíkurflugvelli fjölgað um 15 til 20 prósent á milli ára og í fyrra voru þeir tæplega 3,9 milljónir. Þessi hraði vöxtur hefur skotið Flugstöð Leifs Eiríkssonar fram úr flughöfnunum í Billund og Bromma í Stokkhólmi á listanum yfir stærstu flugvelli Norðurlanda síðustu ár.
Forsvarsmenn Isavia áætla að 4,5 milljónir farþega fari um Keflavíkurflugvöll í ár og ef þær áætlanir ganga eftir gæti sá íslenski velt flugvellinum í Þrándheimi úr sessi sem áttunda stærsta flughöfn Norðurlanda. Í fyrra fóru um 4,4 milljónir farþega til og frá norska flugvellinum en er álíka mikið og árið á undan.

Fleiri í vopnaleit

Þó gert sé ráð fyrir að farþegum á Keflavíkurflugvelli fjölgi um sex hundruð þúsund í ár þá er stefnt að því að halda óbreyttum afgreiðslutíma við innritun og öryggishlið að sögn Friðþórs Eydal, talsmanns Isavia. Hann segir að með breytingum í brottfararsal verði hægt að bæta við afgreiðslulínum og starfsfólki í flugverndarskoðun.

Ekki meira pláss á háannatímum

Nú er svo komið að ekki er hægt að bæta við flugferðum til og frá Keflavíkurflugvelli á háannatímum á morgnana og seinnipart dags en Friðþór segir flugstöðina verst nýtta um miðjan morgun, á kvöldin og um hánóttina. „Þetta er öllum þeim sem hyggjast koma nýir inn eða auka umsvifin bent á og þeir hvattir til þess að nýta sér þjónustuna á þessum þægilegu afgreiðslutímum sem standa til boða. Margir hafa einmitt kosið að nýta sér það.“

Sá eini með ekkert innanlandsflug

Aðalflugvellirnir í Kaupmannahöfn, Ósló og Stokkhólmi eru þeir langstærstu á Norðurlöndum og jókst umferðin um þá í fyrra þónokkuð. Sá danski er sem fyrr stærstur og með komu Ryanair til Kaupmannahafnar er búist við að farþegum þar fjölgi enn frekar í ár. En þetta stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu býður ekki upp á flug til Arlanda í Stokkhólmi eða Óslóarflugvallar. Af tíu stærstu flughöfnum Norðurlanda er Flugstöð Leifs Eiríkssonar sú eina sem ekki er nýtt fyrir bæði millilanda- og innanlandsflug og til að mynda voru þrír af hverjum fjórum farþegum á flugvellinum í Þrándheimi á ferðalagi innan Noregs. Hér fyrir neðan er listi yfir stærstu norrænu flughafnirnar og er listinn byggður á upplýsingum frá flugvöllunum sjálfum.

10 stærstu flugvellir Norðurlanda

  Flugvöllur Farþegar árið 2014 Aukning milli ára
1. Kaupmannahafnarflugvöllur 25,6 milljónir 6,5%
2. Óslóarflugvöllur 24,2 milljónir 4,8%
3. Arlanda í Stokkhólmi 22,4 milljónir 9%
4. Vantaa í Helsinki 15,9 milljónir 4,4%
5. Flesland í Bergen 6 milljónir -0,9%
6. Landvetter í Gautaborg 5,2 milljónir 4%
7. Sola í Stavanger 4,7 milljónir 0,3%
8. Værnes í Þrándheimi 4,4 milljónir 1,4%
9. Flugstöð Leifs Eiríkssonar 3,9 milljónir 20,5%
10. Billund 2,8 milljónir 0,8%