Bjóða upp á betri svefnaðstöðu í Íslandsflugi

delta 2

Á laugardaginn hefst sumarflug Delta til Íslands á ný og í ár verður áætlunin mun viðameiri en áður. Á laugardaginn hefst sumarflug Delta til Íslands á ný og í ár verður áætlunin mun viðameiri en áður. Auk þess mun félagið bjóða upp á betri svefnaðstöðu um borð en áður hefur þekkst hér á landi.
Undanfarin ár hefur bandaríska flugfélagið Delta Air Lines boðið upp á reglulegar ferðir hingað frá New York yfir aðalferðamannatímabilið. Í ár verður sumaráætlun flugfélagsins hér á landi hins vegar sex vikum lengri en áður. Fyrsta ferðin er á dagskrá 2. maí og flogið verður fram í lok september. Ferðum Delta fjölgar því þónokkuð í ár og eins mun félagið notast við stærri vélar í Íslandsfluginu yfir hásumarið. Í þotunum verður pláss fyrir 234 farþega sem er nokkru meira en gerist og gengur í millilandaflugi héðan.

Glæsilegra fyrsta farrými

Í flugvélum Delta sem fljúga milli flugstöðva Leifs Eiríkssonar og John F. Kennedy í maí og september verður í boði viðskiptafarrými sem er útbúið svokölluðum „flat-bed“ sætum og mun það vera í fyrsta skipti sem þess háttar aðstaða er í boði fyrir farþega hér á landi samkvæmt því sem segir í tilkynningu frá Delta. Sætin er hægt að leggja alveg niður og þá verður til 196 sentimetra langt rúm. Á fyrsta farrými er meðal annars boðið upp á fimm rétta máltíð og sérvalin vín, auk rúmra farangursheimilda. „Delta vinnur að því að setja flat-bed sæti um borð í allar flugvélar félagsins í alþjóðaflugi og það er okkur sérstök ánægja að geta boðið slík þægindi fyrst allra félaga í flugi frá Íslandi í sumar,“ segir Perry Cantarutti, forstjóri Delta í Evrópu, Austurlöndum nær og Afríku í tilkynningu. „Við leggjum mikið upp úr því að bæta upplifun viðskiptavinarins og mikilvægur þáttur þess er að bjóða upp á frábær sæti og úrvals þjónustu um borð. Við vonum að íslenskir viðskiptavinir okkar njóti þess þegar þeir fljúga næst með okkur.“