Bjórbarinn á Keflavíkurflugvelli meðal þeirra átta bestu

loksinsbar

Loksins bar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er einn þeirra staða sem kemst á lista bandarísks ferðarits yfir bestu flugvallarbarina fyrir ölþyrsta Loksins bar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar er einn þeirra staða sem kemst á lista bandarísks ferðarit yfir bestu flugvallarbarina fyrir ölþyrsta.
Smekkur fólks á bjór hefur breyst mikið síðustu ár og margir fúlsa orðið við hefðbundnum ljósum lager. Núna á bjórinn vera bragðmeiri og fjölbreyttari og ekki skemmir fyrir ef hann kemur frá minni framleiðanda. Verksmiðjubjórinn á því undir högg að sækja.

Flugstöðvarnar fram úr flugvélunum

Flugfarþegar sem vilja fá sér bjórsopa verða hins vegar ennþá að sætta sig við bragðdaufu bjórana, alla vega í háloftunum þar sem úrvalið hefur lítið sem ekkert breyst þrátt fyrir breytta tíma. Á flugvöllunum sjálfum eru hins vegar komnir barir sem leggja sig fram um að bjóða upp á gott úrval af nýmóðins öli. Einn þeirra er Loksins bar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem opnaði í síðasta mánuði en er nú þegar komin á lista tímaritsins Travel&Leisure yfir 8 bestu bjórbarina fyrir flugfarþega. Í umsögn blaðsins er Loksins bar hrósað fyrir gott úrval af bjórum frá Borg og brennivínsstaupin.

Bjórinn selst allann daginn

Í samtali við Túrista segir Sig­urður Skag­fjörð Sig­urðsson, fram­kvæmda­stjóri hjá Lag­ar­dère, sem rekur Loksins bar, að þar sé hægt að velja á milli sex bjóra á krana og mikil úrvals af flöskubjór. Hann segir útlendinga hafa mikinn áhuga á framleiðslu lítilla brugghúsa. Á Loksins bar eru líka seld allskonar skot, sum þeirra heimatilbúin, og einnig nýtur brennivínið vaxandi vinsælda hjá útlendingum og Íslendingum að sögn Sigurðar. Hann bætir því við að margir fái sér líka vínglas á barnum og þá sérstaklega hvítvín. Aðspurður um hvort það tíðkist ennþá að farþegar fái sér áfenga drykki fyrir morgunflug segir Sigurður að bjór seljist á öllum tímum dagsins en annað áfengi aðallega eftir klukkan 11.

Bestu bjórbarirnir fyrir bjórþyrsta flugfarþega að mati Travel&Leisure

  • Loksins bar í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
  • Spinnakers Brewpub á Victoria International flugvelli
  • Bar Symon á Washington-Dulles (heimahöfn Icelandair í höfuðborg Bandaríkjanna)
  • Halo Fizz Bar á London Stansted
  • Rock & Brews á Los Angeles flugvelli
  • Stone Brewing á San Diego flugvelli
  • Le Grand Comptoir á John F. Kennedy flugvelli (Delta og Icelandair fljúga þangað frá Íslandi)
  • Sip Savvy á San Jose flugvelli