Enn beðið úrskurðar Samkeppniseftirlitsins í máli WOW air

flugtak 860

Áfram er deilan um úthlutun komu- og brottfarartíma við Flugstöð Leifs Eiríkssonar til skoðunar í kerfinu. 
Í febrúar árið 2013 sendu forsvarsmenn WOW air kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna úthlutunar á afgreiðslutímum á Keflavíkurflugvelli. Eftirlitið tók undir rök WOW air og úrskurðaði í lok október 2013 að flugfélagið ætti rétt á tveimur af afgreiðslutímum Icelandair á Keflavíkurflugvelli að morgni og seinnipartinn. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála snéri úrskurðinum við og héraðsdómtur og Hæstiréttur vísuðu málinu frá. Í millitíðinni fór það einnig fyrir EFTA dómstólinn.

Enn í vinnslu

Á sama tíma og málið hefur velkst um í dómskerfinu hefur Samkeppniseftirlitið haft til skoðunar samskonar erindi frá WOW air sem snýr að úthlutun fyrir sumarvertíðina í ár. Sumardagskrá flugfélaganna hófst formlega um síðustu mánaðarmót en áfram verður að bíða eftir nýjum úrskurði því samkvæmt upplýsingum frá Samkeppniseftirlitinu er málið enn í vinnslu og ekki er ljóst hvenær niðurstaða mun liggja fyrir.

Hitamál

Þegar Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að taka ætti afgreiðslutíma af Icelandair og afhenda WOW air vakti það athygli í fluggeiranum út í heimi. Talsmaður IATA, alþjóðlegra samtaka flugfélaga, sagði í svari til Túrista um málið að reglurnar sem gilda um úthlutun afgreiðslutíma væru skýrar og sanngjarnar og að flugfélög ættu hefðarrétt á afgreiðslutímum svo lengi sem nýtingin á þeim færi ekki undir 80 prósent. Sagði jafnframt í svari IATA að hefðarrétturinn væri undirstaðan í því úthlutunarkerfi sem notað er víða um heim og þar sé einnig tekið fram að ekki megi svipta flugfélag afgreiðslutíma til að hleypa nýjum aðila að. Frank Holton, sá sem sér um úthlutunina á íslenskum flugvöllum, sagði í viðtali við Túrista eftir að málinu hafði verði vísað frá dómi að niðurstaðan tryggði öryggi í fluggeiranum og væri sigur fyrir neytendur.

Ekki tímar fyrir fleiri

Líkt og kom fram í frétt Túrista í mars þá er ekki pláss fyrir fleiri flugvélar við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á háannatímum á morgnanna og seinnipartinn. Ef staðan væri önnur þá hefði deilan um úthlutunina ólíklega komið upp. Það er hins vegar algilt að flugvellir séu þéttsetnir og til að mynda hefur ekki verið hægt að úthluta nýjum tímum við Heathrow flugvöll um langt árabil.