Fleiri nýta sér strætóferðir út á Keflavíkurflugvöll

fle 860

Leið 55 flutti nærri átta þúsund farþega í síðasta mánuði á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja Leið 55 flutti nærri átta þúsund farþega í síðasta mánuði á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. 
Í byrjun árs hófust áætlunarferðir Strætó milli miðborgar Reykjavíkur og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Vagninn stoppar meðal annars við Háskóla Íslands, Kringluna, Fjörð í Hafnarfirði og Keili í Reykjanesbæ á leiðinni og tekur ferðalagið eina klukkustund og sautján mínútur samkvæmt áætlun Strætó. Fargjaldið er 1.400 krónur en til samanburðar kostar ódýrasti miðinn með Flugrútunni 1.950 krónur (3.500 kr. báðar leiðir) og Airport Express 1.900 kr. (3.400 kr. báðar leiðir) og fara bílar þessara fyrirtækja leiðina á þremur korterum. 

Mikil fjölgun strax í byrjun

Þessar nýju almenningssamgöngur eru á samstarfsverkefni Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum og Strætó og í janúar nýttu 4.769 farþegar sér þessa þjónustu. Í febrúar fór farþegafjöldinn upp í 7.623 og í mars voru farþegarnir 7.907 talsins samkvæmt upplýsingum frá Berglindi Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum. Hún segir að ekki hafi verið farið út í nákvæma sundurliðun á samsetningu farþega en stærsti hluti þeirra séu íbúar Suðurnesja sem sæki skóla og vinnu á höfuðborgarsvæðið. Gera má ráð fyrir að bæði innlendir og erlendir ferðamenn nýti sér þessar áætlunarferðir að sögn Berglindar.

Aðeins frá Reykjavík á virkum dögum

Leið 55 fer níu ferðir á dag frá Umferðarmiðstöðinni að Flugstöð Leifs Eiríkssonar en þó eingöngu á virkum dögum en um helgar keyrir vagninn aðeins milli Fjarðar í Hafnarfirði og flugstöðvarinnar. Fyrsta ferð frá Umferðarmiðstöðinni er klukkan 23 mínútur yfir sex og er vagninn kominn út á völl tuttugu mínútur í átta. Það er of seint fyrir þá sem ætla að ná morgunflugi íslensku flugfélaganna en áætlun Strætó passar þeim betur sem fljúga með hádegisvélunum.