Skera niður flug milli Íslands og Sviss

basel vetur

Í vetur hefur í fyrsta skipti verið boðið upp á áætlunarflug héðan til Sviss og hefur fjöldi svissneskra ferðamanna þrefaldast. Í vetur hefur í fyrsta skipti verið boðið upp á áætlunarflug héðan til Sviss og hefur fjöldi svissneskra ferðamanna þrefaldast. Ekki verður hins vegar framhald á þessum áætlunarferðum nema að litlu leyti.
Fyrir ári síðan hóf breska lággjaldaflugfélagið easyJet að fljúga hingað til lands tvisvar í viku frá Basel í Sviss og í október sl. bættust við jafn margar ferðir frá Genf. Til stóð að starfrækja þessar flugleiðir allt árið um kring en líkt og Túristi greindi frá í gær er ekki lengur hægt að bóka flug héðan til Genfar frá lokum október á heimasíðu easyJet.

Farþegar fá endurgreitt

Forsvarsmenn flugfélagsins höfðu hins vegar ekki tilkynnt um breytingar á áætlun til Genfar og í gær var svo ekki lengur mögulegt að panta far héðan til Basel yfir háveturinn líkt og hægt var á daginn áður. Eftir ítrekaðar tilraunir staðfestir Carinne Heinen, upplýsingafulltrúi easyJet, í svari til Túrista að frá og með október nk. muni easyJet aðeins fljúga til Íslands frá Genf yfir sumarmánuðina og flugið frá Basel verði lagt niður frá lokum nóvember og fram í febrúar. „Haft verður samband við alla þá farþega sem áttu bókuð sæti og þeim boðin full endurgreiðsla. Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta veldur“, segir í svari Heinen til Túrista. Það sem af er ári hefur easyJet verið næst umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli og boðið upp á rúmlega hundrað ferðir í mánuði.

Þrefalt fleiri Svisslendingar

Eins og áður segir er easyJet fyrsta flugfélagið sem býður upp á áætlunarflug héðan til Sviss yfir vetrarmánuðina og hefur fjöldi svissneskra túrista hér á landi þrefaldast síðustu fimm mánuði. Alls hafa 4.745 Svisslendingar komið til landsins síðan að flugið frá Genf bættist við leiðakerfi easyJet í lok október. Veturna tvo þar á undan voru svissnesku ferðamennirnir á bilinu fimmtán til sextán hundruð.
Flugvellirnir í Basel og Genf liggja báðir við landamæri Frakklands og Sviss og áætlunarflugið til borganna tveggja er því líklega ein ástæða þess að frönskum túristum hefur fjölgað um 45 prósent í ár samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Flugvöllurinn í Basel er einnig skammt frá þýsku landamærunum.
Auk easyJet þá býður Icelandair upp á áætlunarflug til Genfar yfir sumarmánuðina og vélar íslenska félagsins fljúga allt að fimm sinnum í viku til Zurich frá vori og fram á haust. 
SMELLTU TIL AÐ SJÁ HVERT ÞÚ GETUR FLOGIÐ BEINT Í VOR, SUMAR OG HAUST.