Sumarfargjöldin til Varsjár hafa hríðfallið á einni viku

varsja

Þau tíðindi að eitt stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu ætlar að hefja flug til hingað frá Póllandi hefur haft mikil áhrif á fargjöld WOW air til Varsjár Þau tíðindi að eitt stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu ætlar að hefja flug til hingað frá Póllandi hefur haft mikil áhrif á fargjöld WOW air til Varsjár. Á sama tíma hafa farmiðar til Gdansk hækkað ríflega í verði.
Fyrir viku síðan kostaði að jafnaði 35.527 krónur að fljúga héðan til Varsjár með WOW air í sumar. Í dag er meðalverðið komið niður í 25.221 kr. og nemur lækkunin 28 prósentum. Farmiðar í allar 36 brottfarir félagsins til höfuðborgar Póllands á tímabilinu 8.júní til 31. ágúst eru ódýrari í dag en fyrir viku síðan samkvæmt úttekt Túrista. Hluti af ferðunum hefur lækkað um nærri helming. Á fimmtudaginn síðasta kostaði flugmiði, aðra leiðina, á bilinu 22.999 til 47.999 kr. en í dag þarf að borga 18.999 til 30.999 kr. fyrir miða til Varsjár. varsja verd s

Ferðin 36 þúsund krónum ódýrari 

Ástæðuna fyrir þessum miklu verðlækkunum má líklega rekja til þess að á fimmtudaginn síðasta tilkynntu stjórnendur lággjaldaflugfélagsins Wizz air að félagið myndi bjóða upp á tvær ferðir í viku hingað til lands frá pólsku borginni Gdansk í sumar og fram á haust. Sala á miðunum hófst á fimmtudaginn og þó Gdansk sé 300 km norðan við höfuðborgina þá hefur þetta nýja áætlunarflug haft mikil áhrif á fargjöld WOW air. Sem dæmi má nefna að sá sem bókaði á fimmtudaginn síðasta farmiða með WOW air til Varsjár dagana 20.júlí til 3.ágúst hefur greitt 95.905 krónur fyrir en í dag kostar farmiðinn þessa sömu daga 59.905 krónur. Verðlækkunin nemur 37 prósentum.

Fargjöld Wizz rjúka upp

Þegar forsvarsmenn Wizz air hófu sölu á Íslandsflugi sínu þá kostuðu ódýrustu farmiðarnir 59.99 evrur sem jafngildir um 8700 krónum. Sjö dögum síðar kostar flugið með Wizz air hingað til lands að jafnaði 20.490 krónur. Lægstu fargjöld félagins hafa því ríflega tvöfaldast í verði frá því að sala hófst. Segja má að félögin hafi nálgast hvort annað í verði undanfarna daga því munurinn á þeim var mjög mikill fyrir viku síðan. 
Þess ber að geta að fyrir tveimur dögum kynnti WOW air tilboð á fargjöldum til Varsjár og kostaði miðinn frá 18.900 krónum. Þau fargjöld eru núna fáanleg í sex af brottförum félagsins til höfuðborgar Póllands í sumar. Frá því að Iceland Express hætti starfsemi hefur aðeins WOW air boðið upp á ætlunarflug milli Póllands og Íslands.