Hlutfall íslenskra farþega hjá Icelandair hefur ekki verið lægra

icelandair radir

Bilið á milli í íslenskra farþega Icelandair og þeirra sem aðeins millilenda á Keflavíkurflugvelli hefur breikkað ört síðustu ár. Bilið á milli í íslenskra farþega Icelandair og þeirra sem aðeins millilenda á Keflavíkurflugvelli hefur breikkað ört síðustu ár. Með auknum umsvifum félagsins gæti vægi íslenskra farþega dregist enn frekar saman.
Innan við sjötti hver farþegi Icelandair á síðasta ári hóf ferðalagið á Íslandi en um helmingur farþega félagsins millilenti aðeins á Keflavíkurflugvelli á leið sinni yfir hafið. Fyrir sjö árum síðan voru íslensku farþegarnir hins vegar fjölmennari en þeir sem millilentu. Vægi þessara tveggja hópa hefur gjörbreyst síðustu ár eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan sem byggir á árlegum skýrslum um farþegafjölda sem finna má á heimasíðu Icelandair Group.

Bilið gæti breikkað áfram

Í skýrslunum er farþegum skipt í þrjá hópa; „From“ eru farþegar frá Íslandi, „To“ eru farþegar á leið til Íslands og „Via“ er hópurinn sem millilendir á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair skiptust farþegar félagsins áður fyrr nokkuð jafnt á milli þessara þriggja hópa en núna eru þeir sem koma frá Íslandi lang fámennastir.
Eins og kom fram í nýlegu viðtali Túrista við Birki Hólm Guðnason, framkvæmdastjóra Icelandair, þá búast forsvarsmenn fyrirtækisins við því að hlutfall farþega frá Íslandi muni áfram lækka með auknum umsvifum. Í fyrra flugu 2,6 milljónir farþega með Icelandair sem er um 85 prósent aukning frá árinu 2008.