Lufthansa fetar sig í átt að lággjaldaflugfélögunum

lufthansa 319

Það verður sífellt algengara að fargjöldin sem flugfélögin auglýsa gildi aðeins flutning á farþeganum sjálfum en ekki töskunum hans. Það verður sífellt algengara að fargjöldin sem flugfélögin auglýsa gildi aðeins flutning á farþeganum sjálfum en ekki töskunum hans. Nú ætla eitt stærsta flugfélag Evrópu að taka upp þess háttar verðskrár.
Hlutdeild lággjaldaflugfélaga stækkar jafnt og þétt í Evrópu sem og annars staðar. Hjá þeim flestum greiða farþegar sérstaklega fyrir að innrita farangur og jafnvel líka fyrir handfarangur. Meirihluti neytenda virðist ekki setja þetta fyrir sig og það er því kannski skiljanlegt að hin hefðbundnu flugfélög hermi eftir lággjaldaflugfélögunum. Frá og með haustinu mun til að mynda þýska flugfélagið Lufthansa hefja sölu farmiðum sem kallast „Economy Light“ og þeir sem kaupa þá verða að borga aukalega fyrir stærri töskur. Áfram verða í boði miðar á ódýrasta farrými með farangursheimild.

Gildir líka í Íslandsflugi

Hægt verður að bóka þessi nýju „Light“ fargjöld frá og með sumrinu og að sögn Martin Riecken, talsmanns Lufthansa, verða nýju fargjöldin einnig í boði á íslensku flugleiðunum. Í næsta mánuði hefst áætlunarflug Lufthansa hingað frá Frankfurt og Munchen en félagið hefur ekki áður boðið upp á ferðir frá þessum borgum. Til að byrja með verða flugleiðirnar aðeins í boði yfir aðalferðamannatímann en eins og kom fram í frétt Túrista þá stefnir Lufthansa á hraðan vöxt á Íslandi og vonast forsvarsmenn félagsins til að gera Ísland að heilsárs áfangastað. Áætlunarflug Lufthansa til Íslands hefur fengið góðar undirtektir í Þýskalandi en einnig hafa Frakkar og Ísraelar verið duglegir að bóka.