Mikil aukning í millilandaflugi í mars

flugtak 860

Að jafnaði tóku þrjátíu farþegaþotur á dag á loft frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði Að jafnaði tóku þrjátíu farþegaþotur á dag á loft frá Keflavíkurflugvelli í síðasta mánuði sem er helmingi meiri umferð en á sama tíma árið 2013.
Það voru níu flugfélög sem buðu upp á áætlunarferðir frá Keflavíkurflugvelli til útlanda í síðasta mánuði og jukust umsvif þeirra allra frá sama tíma í fyrra að undanskildu WOW air. Mest var viðbótin hjá easyJet og Icelandair og bæði félög bættu við 51 ferð og þriðja mánuðinn í röð er breska lággjaldaflugfélagið annað umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan sem byggir á talningu Túrista.

Sveiflur í hlutdeild

Þó ferðum Icelandair fjölgi þá minnkar vægi félagsins umtalsvert á milli ára. Í mars 2013 stóð félagið fyrir átta af hverjum tíu ferðum frá landinu en ári síðar var hlutfallið komið niður í 71,8 prósent. Í mars síðastliðnum voru tvær af hverjum þremur brottförum á vegum Icelandair og hlutdeild félagsins í umferðinni um Keflavíkurflugvöll í marsmánuði hefur dregist saman um 13,5 prósentustig siðustu tvö ár. Á sama tíma hefur ferðum félagsins fjölgað um fimmtung.
Eins og áður segir fækkaði ferðum WOW air lítillega frá því í fyrra og félagið er því áfram þriðja umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli en mun líklega fara upp fyrir easyJet á ný í vor og sumar þar sem breska félagið dregur úr Íslandsflugi á þeim tíma og eins hefur WOW air bætt við flugi til Bandaríkjanna. 

Umsvifamestu flugfélögin á Keflavíkurflugvelli, í brottförum talið:

Mars 2015 Flugfélag Hlutdeild 2015 Hlutdeild 2014
1. Icelandair 66,4% 71,8%
2. easyJet 13,1% 8,8%
3. WOW air 10,9% 13,9%
4. SAS 3,4% 2,9%
5. Primera Air 1,8% 0,5%