Mikill samdráttur í flugbókunum vegna verkfalls

norwegian velar860

Á meðan flugvélarnar eru fastar á jörðu niðri þá dregur verulega úr farmiðapöntunum og það fengu eigendur næststærsta flugfélags Norðurlanda að reyna í síðasta mánuði. Á meðan flugvélarnar eru fastar á jörðu niðri þá dregur verulega úr farmiðapöntunum og það fengu eigendur næststærsta flugfélags Norðurlanda að reyna.
Ríflega sjö hundruð flugmenn Norwegian lögðu niður störf fyrstu tíu dagana í síðasta mánuði. Fella þurfti niður nær allt flug félagsins innan Skandinavíu þessa daga en ferðir til annarra landa gengu nær snurðulaust fyrir sig. Til að mynda þurfti aðeins að hætta við eina ferð félagsins til Íslands í mars.

Hlutabréfin ruku upp

Talið er að ferðaplön 150.000 farþega hafi riðlast vegna verkfallsaðgerðanna og þær hafi kostað Norwegian um sex milljarða króna. Þriðjung af tapinu má rekja til tekjumissis vegna lítillar farmiðasölu á meðan á vinnustöðvuninni stóð samkvæmt tilkynningu sem félagið sendi frá sér fyrir helgi. Þrátt fyrir þessi neikvæðu tíðindi þá rauk hlutabréfaverð í Norwegian upp um sextán prósent á föstudaginn. 

SAS græddi á verkfallinu

Á Norðurlöndunum er SAS eina flugfélagið sem er stærra en Norwegian og verkfallið kom helsta keppinautnum vel. Farþegum SAS fjölgaði nefnilega um 6,1 prósent í mars og viðurkenna stjórnendur SAS fúslega að þessi jákvæða þróun skrifast að miklu leyti á vinnustöðvunina hjá Norwegian.
Nærri þrjú af hverjum fjórum sætum í vélum SAS voru skipuð í mars og hjá Norwegian var hlutfallið 84,2 prósent. Líkt og kom fram í frétt Túrista í síðustu viku þá var sætanýtingin hjá Wow air 90 prósent í síðasta mánuði og hjá Icelandair var hún 82,7 prósent.