Flugfélögin horfa ekki til Akureyrar og Egilsstaða

flugtak 860

Ekkert erlent flugfélag hefur gefið millilandaflugi frá Norður- og Austurlandi gaum um langt skeið. Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins á að kanna hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi frá Akureyri og Egilsstöðum. Ekkert erlent flugfélag hefur sýnt flugvöllunum áhuga um langt skeið. 
Fyrir nokkrum árum siðan íhuguðu forvarsmenn Ryanair, stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu, að hefja áætlunarflug hingað til lands og horfðu þeir meðal annars til Akureyrar. Aðflugið fyrir norðan þótti þeim hins vegar of erfitt og kostnaðurinn í Keflavík stóð í Ryanair líkt og Túristi greindi frá. Ekkert annað flugfélag hefur síðan þá skoðað möguleikann á því að bjóða upp á áætlunarferðir til útlanda frá Akureyri og það sama gildir um Egilsstaðarflugvöll samkvæmt upplýsingum frá Isavia. Reyndar hafði flugfélagið Greenland Express uppi áform um að millilenda á Akureyri á leiðinni milli Grænlands og Danmerkur í fyrra en ekkert varð úr því og vél félagsins stoppaði í staðinn á Keflavíkurflugvelli.

Fleiri lendingarstaði

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að skipa nefnd sem kanna á hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum og á starfshópurinn að skila tillögum eftir þrjá mánuði. Frá haustinu 2011 hafa hins vegar sveitarfélög og fyrirtæki í ferðaþjónustu Norðanlands staðið saman að Flugklasanum Air 66 sem hefur það að markmiði að fá reglulegt millilandaflug um Akureyrarflugvöll allt árið. Það markmið hefur ekki ennþá náðst en sl. sumar var haft eftir framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands í Vikudegi að easyJet og Norwegian væru meðal þeirra flugfélaga sem hafi sýnt flugi til Akureyrar áhuga og einnig væri flugvöllurinn inn í myndinni hjá þýskum lággjaldaflugfélögum. Talsmenn easyJet, Norwegian og þýsku flugfélaganna Airberlin og German Wings sögðu hins vegar engin áform uppi um að hefja áætlunarflug til Akureyrar í svörum sínum til Túrista. Í dag taka upplýsingafulltrúar easyJet og Norwegian í sama streng en segja félögin sífellt leita nýrra tækifæra.

Til Grænlands og Tyrklands 

Frá vori og fram á haust býður Norlandair upp áætlunarflug frá Akureyri til austurstrandar Grænlands og íslenskar ferðaskrifstofur bjóða reglulega upp á beint flug þaðan til útlanda. Til að mynda mun ferðaskrifstofan Nazar fljúga beint þaðan til Tyrklands í haust. Icelandair flýgur einnig frá Akureyri til Keflavíkurflugvallar yfir sumarmánuðina.
NÝJAR GREINAR: Vorferðir til útlanda á 10 til 40 þúsundHvað kostar bílaleigubíll í Evrópu í sumar