Nú er ódýrara að fara fljótustu leiðina til Stokkhólms

arlandaexpress

Ertu á leið í helgarferð til höfuðborgar Svíþjóðar? Þá borgarðu miklu minna fyrir hraðlestina í bæinn. Það eru 42 kílómetrar á milli Arlanda flugvallar og miðborgar Stokkhólms. Hraðlestin er langfljótust í bæinn og nú bjóðast miðarnir í hana á betri kjörum en áður.
Við komuna til höfuðborgar Svíþjóðar eru fjórir valkostir í boði fyrir þá sem þurfa að koma sér niður í bæ. Þeir ódýrustu eru flugrúturnar og almenna lestin og kosta miðarnir á bilinu 1600 til 1900 krónur á mann. Ferðalagið tekur um þrjú korter. Leigubíll er að minnsta kosti hálftíma á leiðinni og farið er á um átta þúsund (500 sænskar).

Ódýrara um helgar

Hraðlestin Arlanda Express fer hins vegar vegalengdinga á innan við tuttugu mínútum og alla jafna kostar miðinn 280 sænskar (um 4400 kr.). Þeir sem eru á ferðinni í borginni fimmtudaga til sunnudaga borga hins vegar miklu minna, sérstaklega ef fleiri ferðast saman. Tveir farþegar borga samanlagt 300 sænskar, þrír greiða 400 sænskar og fjórir deila 500 sænskum á milli sín. Börn yngri en 17 ára fá frítt far.  
Arlanda Express stoppar við aðallestarstöðina í Stokkhólmi.