Flugmiðar vorsins á 10 til 40 þúsund krónur.

paris Ile de la cite

Langar þig að skreppa til Barcelona, Parísar, Edinborgar eða Genfar í apríl eða maí? Það þarf ekki að kosta mikið að fara í borgarferð með stuttum fyrirvara. Hér eru nokkur dæmi um hvernig þú getur sett saman vorreisu fyrir lítið.
Vorið er komið víða á meginlandi Evrópu en ennþá snjóar hér heima. Það eru því vafalítið margir til í að bregða sér af bæ sem fyrst en tíma kannski ekki að setja pening í utanlandsferð akkúrat núna.
Túristi hefur hins vegar farið í gegnum heimasíður flugfélaganna og eins og sjá má hér fyrir neðan þá er hægt að fljúga fyrir lítið til Barcelona, Parísar, Edinborgar, Genfar og Óslóar í apríl og maí með erlendum lággjaldaflugfélögum. Þau rukka öll aukalega fyrir innritaðan farangur. Athugið að 14. maí og 25. maí eru rauðir dagar.

Barcelona

Í byrjun maí má finna nokkrar ódýrar dagsetningar með spænska lággjaldaflugfélaginu Vueling til Barcelona. Þess ber að geta að brottförin frá Keflavíkurflugvelli er stuttu eftir miðnætti og lagt er í hann frá Spáni seint um kvöld. Þeir sem láta ekki þessa flugtíma stoppa sig geta fengið flugmiðana óvenju ódýra.

Bristol

Af fargjöldunum að dæma eru ekki margir búnir að bóka flug með easyJet hingað frá Bristol í apríl og maí. Þangað er því hægt að komast fyrir sáralítið.

Edinborg

Hið breska easyJet flýgur hingað allt árið frá Edinborg og inn á milli má finna hræbillega flugmiða.

Genf

Líkt og til Edinborgar þá kostar flugið til Genfar oft lítið. Verðlagið í borginni sjálfri er þó ekki mjög hagstætt.

London

Fimmta hver vél sem tekur á loft frá Keflavík tekur stefnuna á London. Þetta mikla framboð hefur áhrif á verðið, sérstaklega hjá easyJet nú í vor.

Ósló

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian flýgur hingað þrisvar í viku frá Ósló allt árið um kring. Félagið er núna með farmiða vorsins á útsölu.

París

Fransk-hollenska lággjaldaflugfélagið Transavia býður einnig upp á næturflug til Íslands yfir sumartímann. Fyrsta ferð er í lok maí og þá er verðið lægst.

En það er ekki nóg að koma sér á staðinn fyrir lítið. Hér má bera saman hóteltilboð í borgunum sjö. Túristi mælir einnig með hótelsíðu Tablet fyrir þá sem vilja heldur velja úr fáum sérvöldum gististöðum.