Skera niður sólarlandaflug

spann strond

Ekkert verður úr beinu flugi til Portúgal í byrjun sumars og ferðunum til Spánar hefur verið fækkað. Ekkert verður úr beinu flugi til Portúgal í byrjun sumars og ferðunum til Spánar hefur verið fækkað.
Síðustu mánuði hefur ferðaskrifstofan Vita haft á boðstólum sólarlandaferðir til Portúgal í maí og júní og til stóð að fljúga með farþegana í beinu leiguflugi héðan til Algarve. Í vikunni var sölu á þessum ferðum hins vegar hætt þar sem eftirspurn eftir þeim var ekki næg að sögn Guðrúnar Sigurgeirsdóttur, framleiðslustjóra Vita. Þeir sem áttu miða með Vita til Portúgal geta haldið óbreyttu plani en fljúga í staðinn með áætlunarflugi og þurfa þá að millilenda. Guðrún segir að margir af þeim sem áttu bókað til Portúgal hafi breytt um áfangastað og náð í síðustu sætin í ferðir Vita til Mallorca í júní. En sala á ferðum til spænsku eyjunnar hefur gengið vel að hennar sögn og sömu sögu er að segja um aðra sólarstaði.

Nærri þriðjungi færri ferðir til Alicante

Í apríl og maí stóð til að vélar WOW air færu þrettán ferðir í hvorum mánuði til spænsku borgarinnar Alicante en samkvæmt nýrri áætlun verða brottfarirnar níu í apríl og jafnmargar í maí. Að sögn Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, er ástæðan fyrir þessari breytingu sú að vélarnar verða nýttar í flug á aðra áfangastaði. Þrátt fyrir þennan samdrátt í vorferðum til Alicante þá eykst framboð WOW air á flugi til Spánar töluvert í ár og nýlega hóf félagið til að mynda að fljúga vikulega til Tenerife.
TENGDAR GREINAR: Þangað geturðu flogið í vor, sumar og haust