Taka undir ósk Ferðamálastofu um nákvæmari talningu flugfarþega

erlendir ferdamenn

Þjóðerni sjöunda hvers ferðamanns á Íslandi er ekki þekkt. Samtök ferðaþjónustunnar vilja ítarlegri talningu. Þjóðerni sjöunda hvers ferðamanns á Íslandi er ekki þekkt. Samtök ferðaþjónustunnar taka undir kröfu Ferðamálastofu um ítarlegri talningu farþega á Keflavíkurflugvelli.
Við vopnaleitina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þurfa allir farþegar að sýna vegabréf og þannig er hægt að skrá hverrar þjóðar farþegarnir eru. Þessi talning er gerð fyrir Ferðamálastofu sem heldur utan um upplýsingar um hversu margir ferðamenn fara frá landinu í hverjum mánuði og hvaðan þeir koma.

Nær eingöngu Vesturlandabúar 

Í dag eru erlendu farþegarnir flokkaðir niður eftir sautján þjóðernum og á listanum eru aðeins tvö Asíulönd en ekkert land frá S-Ameríku, Afríku eða Eyjaálfu. Einu fulltrúar Austur-Evrópu á listanum eru Pólland og Rússland. Farþegar frá öðrum löndum en þessum sautján fara því í flokkinn „aðrir“ og í fyrra lentu um 142 þúsund manns í óskilgreinda hópnum líkt og kom fram í frétt Túrista. Ferðamálastofa hefur óskað eftir því við Isavia að þjóðunum í talningunni verði fjölgað en forsvarsmenn Isavia óttast að verði það gert þá geti raðirnar við öryggisleitina lengst.

Hafa barist fyrir betri upplýsingum

Samtök ferðaþjónustunnar taka undir kröfu Ferðamálastofu um bætta talningu ferðamanna á Keflavíkurflugvelli. „Það er ákaflega mikilvægt fyrir þá sem starfa í ferðaþjónustu að þekkja viðskiptavininn sem best, þ.e. þá ferðamenn sem sækja Ísland heim. Það er auðvitað eðlileg krafa að flokkunin á Keflavíkurflugvelli sé nákvæmari og hægt sé að fá betri greiningu á þjóðerni þeirra ferðamanna sem koma til landsins“, segir í svari Skapta Arnar Ólafssonar, upplýsingafulltrúa SAF til Túrista. Hann segir að samtökin hafi lengi barist fyrir betri tölfræðiupplýsingum um þessa ört vaxandi atvinnugrein og því beri að fagna að Ferðamálastofa óski eftir frekari greiningu á hópi ferðamanna.