Töskugjald til stöðugrar skoðunar hjá Icelandair

icelandair flug

Það verður sífellt algengara að hefðbundin flugfélög taki upp alls kyns aukagjöld að hætti lággjaldaflugfélaga Það verður sífellt algengara að hefðbundin flugfélög taki upp alls kyns aukagjöld að hætti lággjaldaflugfélaga. Farangursgjöld eru reglulega til athugunar hjá stjórnendum Icelandair.
Sjö af þeim sextán flugfélögum sem halda uppi áætlunarflugi frá Keflavíkurflugvelli rukka farþegana aukalega fyrir innritaðan farangur samkvæmt úttekt Túrista. Í haust bætist Lufthansa, stærsta flugfélag Þýskalands, í þennan hóp því brátt geta farþegar félagsins bókað flugmiða án farangursheimildar innan Evrópu og á það jafnframt við um í Íslandsflugi félagsins. Fleiri hefðbundin flugfélög, til að mynda Air France, hafa tekið upp þess háttar aukagjöld sem áður tíðkuðust aðeins hjá lággjaldaflugfélögum.

Engin ákvörðun tekin

Farþegar Icelandair mega í dag innrita eina tösku án endurgjalds ef flogið er innan Evrópu en tvær töskur fylgja með fargjaldinu þegar haldið er vestur um haf. Aðspurður um hvort líklegt sé að Icelandair bjóði fargjöld án farangursheimildar á næstu árum segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, að engar ákvarðanir um þetta hafi verið teknar. „Þessi mál eru í stöðugri skoðun og þróun hjá okkur, eins og svo mörgum öðrum flugfélögum, en ákvarðanir hafa ekki verið teknar um breytingar.“

Ólík töskugjöld

Líkt og kom fram í nýrri könnun Túrista þá eru farangursgjöld flugfélaganna mismunandi há. Lægsta gjaldið er 1.730 krónur en það hæsta 4.990 krónur fyrir aðra leiðina. Farþegar sem vilja taka með sér meira en aðeins handfarangur með þessum flugfélögum borga því allt að tíu þúsund krónur undir eina tösku. Hjá tveimur flugfélögum hér á landi, WOW air og Wizz air, þurfa farþegar í sumum tilvikum að borga aukalega fyrir handfarangur.
TILBOÐ: NÚ KOSTAR MINNA AÐ TAKA FRÁ BÍLALEIGUBÍL