Vilja ítarlegri talningu ferðamanna

fle 860

Ekki er vitað hverrar þjóðar 142 þúsund ferðamenn hér á landi voru á síðasta ári. Ekki er vitað hverrar þjóðar 142 þúsund ferðamenn hér á landi voru á síðasta ári. Ferðamálastofa hefur óskað eftir því að flugfarþegar á Keflavíkurflugvelli verði flokkaðir eftir fleiri þjóðernum en nú er gert. Isavia óttast að það verði til þess að biðtími við öryggishliðin lengist.
Við vopnaleitina í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þurfa allir farþegar að sýna vegabréf og þannig er hægt að flokka farþega eftir löndum. Talningin er gerð fyrir Ferðamálastofu sem heldur utan um opinberar upplýsingar um fjölda erlendra og íslenskra flugfarþega á Keflavíkurflugvelli en þeir sem aðeins millilenda eru ekki taldir með.

Sjöundi hver er ekki talinn

Í dag eru erlendu farþegarnir flokkaðir niður eftir sautján þjóðernum og lendir um sjöundi hver útlendingur í flokknum „Aðrir“ og hefur hlutfall þessa hóps haldist á því bili síðustu ár. Í fyrra innrituðu ríflega 969 þúsund útlendingar sig í flug á Keflavíkurflugvelli og þar af lentu um 142 þúsund manns í óskilgreinda hópnum.

Bíða eftir svörum

Aðspurð um þörfina á að telja farþega eftir fleiri þjóðernum segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, að Ferðamálastofa hafi óskað eftir því við Isavia fyrir nokkru síðan að ráðist verði í aðgerðir til að fjölga þjóðunum í talningunni á Keflavíkurflugvelli. „Þrátt fyrir ítrekanir höfum við ekki fengið endanleg svör frá þeim um það með hvaða hætti þetta getur orðið, hver kostnaðurinn yrði eða hvenær unnt verði að ráðast í þessar breytingar.“  

Gæti hægt á afgreiðslu

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að ef listinn yfir þjóðerni verði stækkaðir þá geti myndast flöskuháls í öryggisleitinni og þá lengri raðir. „Auk þess aukast skekkjumörk í talningunni eftir því sem þjóðlöndum fjölgar á listanum. En við erum með verkefni í gangi þar sem við erum að kanna alla möguleika og reynum eftir fremsta megni að finna lausn sem er áreiðanleg og verður ekki til þess að auka raðir.“

Helmingi fleiri „Aðrir“

Fyrstu þrjá mánuði ársins hafa 28 þúsund erlendir ferðamenn hér landi lent í óskilgreinda hópnum og hefur hann stækkað um nærri helming frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Á sama tíma hefur túristum í heildina fjölgað um 31 prósent. Ferðamönnum frá þeim þjóðum sem ekki eru taldar sérstaklega fjölgar því hraðar en túristum almennt hér á landi. Á listanum yfir þjóðirnar sem taldar eru í dag eru aðeins tvö Asíulönd en ekkert land frá S-Ameríku, Afríku eða Eyjaálfu. Einnig vantar Evrópuþjóðir eins og Belgíu og Austurríki og einu fulltrúar Austur-Evrópu á listanum eru Pólland og Rússland.
Flugfélögin halda líklega hvert fyrir sig utan um upplýsingar um þjóðerni sinna farþega en þær upplýsingar eru ekki opinberar öfugt við talningu Ferðamálastofu.