Stærsta lággjaldaflugfélag Austur-Evrópu hefur Íslandsflug

wizz stm

Wizz Air hefur áætlunarflug til Íslands í sumar og býður mun lægri fargjöld til Póllands en nú eru fáanleg. Wizz Air hefur áætlunarflug til Íslands í sumar og býður mun lægri fargjöld til Póllands en nú eru fáanleg.
Af þeim löndum sem voru austan við járntjaldið er aðeins flogið héðan til Póllands og Litháen auk Schönefeld flugvallar í austurhluta Berlínar sem tilheyrði Þýska alþýðulýðveldinu. Það er WOW air sem er með flugið til Varsjár, Vilníus og Berlínar.

Frá Gdansk tvisvar í viku

Nú ætlar ungverska lággjaldaflugfélagið Wizz Air að bæta við áfangastað í Póllandi því þann 19. júní hefst áætlunarflug félagsins hingað til lands frá Lech Walesa flugvelli við Gdansk. Daniel de Carvalho, talsmaður Wizz Air, segir í svari til Túrista að Reykjavík verði 111. áfangastaður félagsins og að ódýrustu farmiðarnir verði á 59,99 evrur. Það samsvarar um 8.700 krónum. Að sögn Carvalho verður flogið alla mánudaga og föstudaga. Vélarnar fara í loftið frá Keflavíkurflugvelli um kvöldmatarleytið og lenda hálf tvö um nótt í Póllandi. Wizz Air er fimmta stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu og það stærsta í Mið- og Austur-Evrópu samkvæmt heimasíðu félagsins.

Fyrst með handfarangursgjald

Hjá Wizz Air greiða farþegar aukalega fyrir innritaðan farangur og félagið var einnig það fyrsta í Evrópu til að rukka fyrir handfarangur. WOW air hefur hingað til verið eina félagið sem gerir slíkt hér á landi.

Mikill verðmunur

Eins og áður segir flýgur WOW air til Varsjár sem er rúmum 300 kílómetrum fyrir sunnan Gdansk. Í dag kostar farmiði með WOW air héðan til höfuðborgar Póllands í júní á bilinu 30.999 til 47.999 aðra leiðina. Með Wizz er hægt að fljúga fyrir 13 til 19 þúsund krónur. Verðmunurinn er því meiri en þrefaldur í sumum tilvikum. Hafa ber í huga að Wizz Air var að hefja sölu á flugleiðinni til Íslands. Hjá báðum flugfélögum leggjast bókunargjöld við farmiðaverðið.
SMELLTU HÉR TIL AÐ SJÁ HVERT ER HÆGT AÐ FJÚGA BEINT FRÁ KEFLAVÍKURFLUGVELLI Í SUMAR