Afslöppuð bresk borgarferð

birmingham 3

Það snúast ekki allar borgarferðir um að skoða heimsfræg kennileiti, fara inn á íburðamikil söfn og máta sjálfan sig í byggð sem hefur verið sögusvið óteljandi bíómynda. Það snúast ekki allar borgarferðir um að skoða heimsfræg kennileiti, fara inn á íburðamikil söfn og máta sjálfan sig í byggð sem hefur verið sögusvið óteljandi bíómynda. Stundum er tilgangur ferðarinnar bara sá að gera vel við sig í mat og drykk, versla smá og njóta þess að vera í útlöndum. Birmingham er staður fyrir ferðamenn sem eru þannig stemmdir.
Þó Birmingham sé næst fjölmennasta borg Bretlands þá ratar nafn hennar sjaldan í fjölmiðla og íbúarnir, hinir svokölluðu Brummies, láta lítið fyrir sér fara í heimspressunni. Alla vega í samanburði við alla þá sem hafa borið hróður borga eins og Liverpool, Manchester og Glasgow víða um lönd.
Kastljósið beindist þó óvænt að borginni í vetur þegar bandarískur blaðamaður sagði Birmingham hættusvæði fyrir fólk sem ekki væri múhameðstrúar. Forsætisráðherra Breta brást illa við og kallaði manninn kjána og fékk mikið lof fyrir meðal borgarbúa. Því þó fjórðungur íbúanna sé að asísku bergi brotinn þá virðist fólk frekar líta á fjölbreytileikann sem mikinn kost en galla. Einn af plúsunum er til að mynda sá að það er leit að vestrænni borg með eins gott úrval af indverskum og pakistönskum mat. Hvergi er þetta eins áberandi og við hinn rómaða Baltic Triangle, í suðurhluta borgarinnar, þar sem úrvalið af þess háttar veitingastöðum er ótrúlegt og sagt vera miklu meira en í London. Á þessum slóðum eru réttir kenndir við Balti karrí víða á boðstólum en öfugt við það sem margir halda þá er Balti karrí ekki kryddblanda heldur samheiti yfir karrírétti sem eldaðir eru í sérstökum potti.

Auðveldara aðgengi að enska boltanum

Hinn fjölbreytti bakgrunnur borgarbúa er ekki aðeins undirstaðan í matarmenningu Birmingham því það er leit að öðrum eins krikketáhuga og er þar að finna enda eru Englendingar, Pakistanar og Indverjar gallharðir í krikketinu. Þjóðarleikvangurinn Edgbaston fyllist því auðveldlega þegar stórleikir eru á dagskrá. Helsta knattspyrnuliðs borgarinnar Aston Villa, má hins vegar muna fífil sinn fegurri og þess vegna má oftast finna lausa miða á leiki liðsins í úrvalsdeildinni. Knattspyrnuáhugafólk þarf því ekki að leita á svarta markaðinum eftir miðum á leiki og kemst á völlinn fyrir mun minna í Birmingham en víða annars staðar.

Mun ódýrari en höfuðborgin

Það eru ekki bara fótboltaáhugamenn sem borga minna í Birmingham en víða annars staðar. Heimamenn telja sig til að mynda geta gert sér glaðan dag á veitingahúsum og börum borgarinnar fyrir að minnsta kosti þriðjungi minna en Lundúnarbúar. Þessi mikli munur á verðlagi er ein helsta ástæðan fyrir því að hverfi eins og Digbeth, sérstaklega í kringum Custard Factory, eru í mikilli sókn. Þangað sækir nú ungt athafnafólk til að opna verslanir, matsölustaði eða bara til að sinna annarri skapandi vinnu. Þessi hópur á varla möguleika á að koma hugmyndum sínum í framkvæmd í London og kemur sér þess vegna fyrir í minni borgum eins og Birmingham þar sem heimamarkaðurinn er engu að síður stór og fjölbreyttur.

Verslað í miðbænum

Víða vestanhafs þarf að fara langan spöl út fyrir miðborgirnar til að komast í stóra verslunarkjarna. Í Birmingham eru þessu öðruvísi farið því í miðhluta borgarinnar er verslunarmiðstöðin Bullring sem mun vera ein sú stærsta í Bretlandi. Risastór verslun Selfridges er aðaltrompið en í Bullring og í götunum í kring er líka að finna ógrynni af útibúum heimsþekktra vörumerkja. Það er því hægt að klára búðaröltið á einu bretti á þessu svæði í miðborginni eða fylla einn og einn poka og rölta upp á hótel með varninginn.
Í miðborginni er verið að taka í gegn aðra kringlu sem kallast Mailbox og opnar hún á ný í sumar og haust. Fyrir þá sem vilja komast í ögn minni verslanir þar sem líkur eru á því að eigandinn sjálfur standi við búðaborðið ættu að taka stefnuna á Jewellery Quarter og Custard Factory. Fyrrnefnda svæðið er þekkt fyrir skartgripabúðir á meðan Custard Factory er fyrir þá yngri.
Icelandair flýgur tvisvar í viku til Birmingham allt árið um kring.

Túristi heimsótti Birmingham í boði Birmingham Airport og Icelandair