Mun meira Bandaríkjaflug en hinum Norðurlöndunum

chicago 2

Flugfarþegar hér á landi valið úr beinu flugi til 12 bandarískra flughafna Með tilkomu áætlunarflugs Icelandair til Chicago geta flugfarþegar hér á landi valið úr beinu flugi til 12 bandarískra flughafna. Frá stóru norrænu flugvöllunum er úrvalið miklu minna.
Í síðustu viku hófst áætlunarflug WOW air til Balitmore/Washington flugvallar í Bandaríkjunum og eftir nokkra daga fer Icelandair jómfrúarferð sína til Portland í Oregon fylki. Þar með verða starfræktar ellefu flugleiðir héðan til Bandaríkjanna. Sú tólfta bætist við í mars á næsta ári þegar Icelandair snýr aftur til O’Hare flugvallar í útjaðri Chicago borgar. Ekki er útilokað að fleiri flugvellir bætist við fljótlega því forsvarsmenn WOW air hafa sagt að þeir stefni á að bæta við fleiri áfangastöðum vestanhafs á næsta ári.

Finnar og Svíar miklu verr settir

Þetta mikla framboð á flugi héðan til Bandaríkjanna skipar Flugstöð Leifs Eiríkssonar í sérflokk á Norðurlöndum. Til að mynda er aðeins flogið til þriggja bandarískra flugvalla frá Vantaa í Helsinki, framboðið á Arlanda við Stokkhólm er helmingi minna en hér á landi og frá Ósló eru starfræktar sjö bandarískar flugleiðir. Frá Kaupmannahafnarflugvelli, stærstu flughöfn Norðurlanda, geta farþegar valið á milli áætlunarferða til átta bandarískra flugvalla. Keflavíkurflugvöllur er einnig eina norræna flughöfnin með beint flug til Logan flugvallar í Boston.

Til þessara bandarísku flugvalla er flogið beint frá Keflavíkurflugvelli:

Anchorage: Icelandair
Baltimore/Washington: WOW air
Boston Logan: Icelandair og WOW air
Chicago O’Hare: Icelandair (frá mars 2016)
Denver: Icelandair
John F. Kennedy í New York: Delta og Icelandair
Minneapolis/St. Paul: Icelandair
Newark í New Jersey/New York: Icelandair
Orlando Sanford International: Icelandair (Orlando International Airport frá og með haustinu)
Portland: Icelandair
Seattle Tacoma: Icelandair
Washington Dulles: Icelandair