Betri sætanýting í Kaupmannahafnarfluginu

kaupmannahof farthegar

Á fyrsta ársfjórðungi fækkaði áætlunarferðunum héðan til Kaupmannahafnar um tíund en engu að síður fjölgaði farþegum á þessari flugleið eilítið. Á fyrsta ársfjórðungi fækkaði áætlunarferðunum héðan til Kaupmannahafnar um tíund en engu að síður fjölgaði farþegum á þessari flugleið eilítið.
Höfuðborg Danmerkur er alla jafna sú borg sem næst oftast er flogið til frá Keflavíkurflugvelli og um tíunda hver vél sem tekur á loft þaðan setur stefnuna á Kaupmannahöfn. Aðeins London er vinsælli áfangastaður hjá flugfélögunum hér á landi.
Til Kaupmannahafnar fljúga Icelandair og WOW air og á fyrsta ársfjórðungi fóru vélar félaganna 478 ferðir á milli Kastrup og Keflavíkurflugvallar samkvæmt talningu Túrista. Þetta eru 11 prósent færri ferðir en á sama tíma í fyrra. 

Ögn fleiri farþegar

Þrátt fyrir færri flugferðir þá fjölgaði farþegum á fyrsta ársfjórðungi um 730 samkvæmt upplýsingum frá samgöngustofnun Danmerkur. Samtals nýttu 75.367 sér áætlunarflugið milli Keflavíkur og Kastrup fyrstu þrjá mánuði ársins. Að farþegum fjölgi á sama tíma og ferðunum fækki gefur til kynna að sætanýtingin á þessari flugleið hafi verið betri á fyrsta ársfjórðungi í samanburði við sama tíma í fyrra. Einnig gætu flugfélögin hafa nýtt stærri vélar í áætlunarflugið til Kaupmannahafnar.

Icelandair með sterka stöðu

Líkt og áður segir þá eru það aðeins Icelandair og WOW air sem bjóða upp á áætlunarflug til dönsku höfuðborgarinnar og á síðasta ári flutti Icelandair þrjá af hverjum fjórum farþegum á flugleiðinni. Hlutdeild félagsins á þessari leið hefur verið stöðug síðustu ár en var hins vegar nokkru minni fyrir rúmum áratug síðan. Árið 2003 hóf Iceland Express starfsemi og fékk félagið fljúgandi start og náði um 40 til 45 prósent hlutdeild í flugi milli Kaupmannahafnar og Keflavíkur ári síðar. Félagið hélt hins vegar ekki þeirri sterku stöðu og WOW air hefur ekki heldur náð að saxa á forskot Icelandair. Félagið var þrettánda umsvifamesta flugfélagið á Kaupmannahafnarflugvelli í fyrra og flugu 304 þúsund farþegar með félaginu til og frá dönsku höfuðborginni. Hafa ber í huga að stór hluti farþega Icelandair millilendir aðeins hér á landi á fer sinni milli N-Ameríku og Evrópu.

Hugsanleg samkeppni

Fyrir síðasta sumar fékk norska lággjaldaflugfélagið Norwegian úthlutaða afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli fyrir áætlunarflug til Kaupmannahafnar. Ekkert varð hins vegar úr því en líkt og kom fram í viðtali Túrista við Bjørn Kjos, þá sér hann fyrir sér aukið flug til Íslands í framtíðinni. Nýlega opnaði hið írska Ryanair starfstöð í Kaupmannahöfn og gæti því hafið áætlunarflug hingað frá flugvelli borgarinnar en forsvarsmenn þessa stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu hafa skoðað möguleikan á að hefja Íslandsflug. Talsmaður Ryanair segir hins vegar ekki ekki neitt nýtt að frétta af þeim vangaveltum.