Hvergi bangnir þrátt fyrir komu British Airways

british airways

Í byrjun vetrar snýr stærsta alþjóðlega flugfélag Bretlands til Íslands á ný. Talsmenn easyJet og Icelandair segjast halda sínu striki þrátt fyrir aukna samkeppni. Í byrjun vetrar snýr stærsta alþjóðlega flugfélag Bretlands til Íslands á ný og mun fljúga hingað þrisvar í viku frá Heathrow flugvelli. Hingað til hefur Icelandair verið eina félagið með áætlunarflug milli þessarar stærstu flughafnar Evrópu og Keflavíkurflugvallar.
Bretar eru langfjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi og sérstaklega yfir vetrarmánuðina. Í fyrra flugu um 180 þúsund breskir farþegar frá Keflavíkurflugvelli og fjölgaði þeim um 31 prósent frá árinu á undan samkæmt talningu Ferðamálastofu. Framboð á flugi milli Bretlands og Íslands hefur á sama tíma aukist umtalsvert og munar þar miklu um að breska lággjaldaflugfélagið easyJet hóf flug hingað til lands fyrir rúmum þremur árum síðan. Þá bauð félagið aðeins upp á þrjár ferðir í viku til Luton en núna flýgur easyJet hingað frá sex breskum flugvöllum allt árið um kring. Í lok október ætlar British Airways að hefja Íslandsflug að nýju eftir nokkurra ára hlé og mun félagið fljúga hingað þrisvar í viku frá Heathrow flugvelli en Icelandair hefur verið eina félagið með áætlunarflug þaðan til Íslands.

Þau erlendu fjölga farþegum til og frá landinu

„Við höfum séð að breski markaðurinn hefur vaxið hratt á undanförnum árum með tilkomu erlendra flugfélaga á borð við easyJet og kynningu á nýjum mörkuðum eins og t.d. Birmingham hjá okkur. Við munum halda ótrauð áfram og þróa þennan markað hvort sem um er að ræða markaðinn til og frá Íslandi eða á milli Bretlands og Norður Ameríku,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, um þessar miklu breytingar á flugsamgöngum milli Íslands og Bretlands. Hann segir að öflug flugfélög eins og easyJet og British Airways hafi öðru fremur þau áhrif að fjölga farþegum til og frá landinu. 

Mikil eftirspurn eftir Íslandsflugi easyJet

Aðspurður um hvort það sé markaður fyrir fleiri flugfélag á þessari flugleið segir Andy Cockburn, talsmaður easyJet, að það sé mikil eftirspurn eftir flugi félagsins til Íslands bæði meðal almennra ferðamanna og viðskiptaferðalanga. „Við erum að sjálfsögðu meðvituð um samkeppnina en einbeitum okkur áfram að því sem við erum að gera.“ 
WOW air býður einnig upp á reglulegar ferðir héðan til Gatwick flugvallar við LondonAuk en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fengust ekki svör frá félaginu við spurningum Túrista um aukna samkeppni í flugi milli London og Íslands.