Er Icelandair á leið til Montreal?

montreal icelandair

Eftir myndbirtingu á samfélagsmiðlunum fór af stað orðrómur um að Icelandair myndi bráðlega hefja áætlunarflug til næst fjölmennustu borgar Kanada Eftir myndbirtingu á samfélagsmiðlum fór af stað orðrómur um að Icelandair myndi bráðlega hefja áætlunarflug til næst fjölmennustu borgar Kanada. Upplýsingafulltrúi Icelandair vill ekki tjá sig um málið.
Í lok árs 2013 var hömlum á flugi milli Íslands og Kanada aflétt og síðan þá hafa umsvif Icelandair í Kanada stóraukist. Félagið flýgur nú allt árið um kring til kanadísku borganna Toronto og Edmonton og til Vancouver og Halifax frá vori og fram á haust. Þessar stórbættu samgöngur milli landanna tveggja skiluðu sér meðal annars í því að kanadískum ferðamönnum hér á landi fjölgaði um 13 þúsund í fyrra. Nam aukningin 62 prósentum frá árinu 2013. 

Lætur ekkert uppi

Nú er uppi orðrómur um að Icelandair ætli að bæta við fimmta áfangastað sínum í Kanada á næstunni. Alla vega ef marka má mynd sem tekin var á flugstöðinni í Montreal í fyrradag og birtist í kjölfarið á kanadískri Facebook-síðu. Á myndinni er skilti með áletruninni, „Aéroports de Montréal tekur Icelandair opnum örmum.“ Textinn er á ensku og íslensku eins og sjá má hér fyrir ofan. Í kjölfarið á birtingu myndarinnar hafa skapast miklar umræður á milli flugáhugafólks um það hvort Icelandair ætli að hefja áætlunarflug til borgarinnar eða ekki. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, vildi hins vegar ekki tjá sig um málið þegar Túristi bar það undir hann.
Líkt og Túristi leiddi líkur að í fyrra þá verður að teljast líklegt að Icelandair bæti við áfangastöðum í Kanada á næstunni og þá helst í Quebec fylki, frönskumælandi hluta landsins, þar sem félagið er í dag ekki með starfsemi á því svæði. Þar er Montreal stærsta borgin með um tvær milljónir íbúa en í höfuðstað fylkisins, Quebec-borg, búa um sjö hundruð þúsund manns.