Fyrsta þýska flugfélagið til að fljúga til Íslands yfir veturinn

airberlin 860

Forsvarsmenn Airberlin ætla ekki lengur að láta sér nægja að fljúga til Íslands yfir sumarmánuðina. Forsvarsmenn Airberlin ætla ekki lengur að láta sér nægja að fljúga til Íslands yfir sumarmánuðina. Þar með verður samkeppni um farþega á leið héðan til Berlínar utan aðalferðamannatímabilsins.
Í byrjun þessa mánaðar hófst Íslandsflug Airberlin á nýjan leik og er þetta tíunda sumarið í röð sem félagið flýgur hingað til lands. Umsvif þessa næststærsta flugfélags Þýskalands á Keflavíkurflugvelli hafa aukist ár frá ári og í sumar mun félagið til að mynda fljúga allt að sex sinnum í viku héðan frá Berlín en tvisvar til þrisvar frá Hamborg, Dusseldorf og Munchen. Í öllum tilvikum er um að ræða næturflug og er lent í Þýskalandi snemma morguns.

Flogið um miðjan dag 

Þrátt fyrir langa reynslu af flugi til Íslands hafa stjórnendur Airberlin ekki boðið upp á reglulegar ferðir hingað utan sumartíma. Á því verður nú breyting því frá og með deginum í dag er hægt að bóka flug með félaginu milli Berlínar og Íslands í allan vetur. Theresa Kahn, talskona félagsins, segir í samtali við Túrista að það sé fagnaðarefni að geta nú boðið upp á heilsárs tengingu milli Íslands og Tegel flugvallar í Berlín. Þar með gefist Íslendingum einnig tækifæri á að nýta sér leiðakerfi Airberlin út um allan heim. Vélar Airberlin munu taka á loft frá Keflavíkurflugvelli um hádegi á fimmtudögum og síðdegis á sunnudögum. Með þessu verður Airberlin fyrsta þýska flugfélagið til að bjóða upp á áætlunarflug til Íslands yfir vetrarmánuðina.

Veita WOW samkeppni

Auk Airberlin fljúga WOW air og German Wings héðan til Berlínar. Íslenska félagið hefur hins vegar verið það eina á flugleiðinni frá hausti og fram á vor. En með tilkomu vetrarflugs Airberlin til Íslands verður breyting þar á. Að sögn Theresa Kahn munu ódýrustu farmiðar Airberlin, báðar leiðir, kosta 199 evrur sem jafngildir rúmum 29 þúsund krónum. Samkvæmt athugun Túrista er það álíka og ódýrustu farmiðar WOW air til Berlínar kostar í vetur. Líkt og Túristi greindi frá um helgina þá hefur íslenskum ferðamönnum í Berlín fjölgað mjög hratt það sem af er ári.