Borgirnar sem Íslendingar fljúga til með Lufthansa

lufthansa 319

Í byrjun þessa mánaðar hóf stærsta flugfélag Þýskalands að fljúga hingað til lands frá Frankfurt og bráðlega bætist við áætlunarferðir frá Munchen.

Síðustu ár hefur þýska flugfélagið Lufthansa flogið hingað til lands frá Dusseldorf, Hamborg og Berlín yfir aðal ferðamannatímabilið. Dótturfélagið German Wings hefur hins vegar tekið allar þessar þrjár flugleiðir yfir og í staðinn mun Lufthansa í fyrsta skipti bjóða upp á áætlunarflug hingað frá Frankfurt og Munchen. En í þessum tveimur borgum rekur félagið sínar helstu starfsstöðvar og flýgur þaðan til meira en 190 áfangastaða víðs vegar um heim.

Meiri eftirspurn en búist var við

Að sögn Martin Riecken, talsmanns Lufthansa, þá hefur sala á þessum nýju flugleiðum verið stöðug og umfram þær væntingar sem forsvarsmenn fyrirtækisins höfðu. Til að mynda er nær uppselt í allar laugardagsferðir Lufthansa í maí til og frá Íslandi. Stærsti hluti pantanna kemur frá Þjóðverjum sem ætla að ferðast á eigin vegum til Íslands.

Margir til og frá Asíu

Það eru þó ekki aðeins þýskir túristar sem ætla að nýta sér áætlunarflug Lufhansa hingað til lands því um tíundi hver farþegi er á leið milli Íslands og Asíu og Eyjaálfu. Martin Riecken segir að Tókýó, Bangkok og Nýja-Delí séu vinsælustu áfangastaðir íslenskra farþega félagsins á leið til Asíu en innan Evrópu þá bóki Íslendingar helst flug til Bologna, Búkarest og Belgrad með Lufthansa.