Vara ferðamenn við leigubílunum við Óslóarflugvöll

flytoget

Túrinn frá Gardermoen til norsku höfuðborgarinnar getur kostað allt að 26 þúsund krónur. Ferðamálaráð borgarinnar mælir því ekki með að fólk taki bíl fyrir utan flugstöðina. Túrinn frá Gardermoen til norsku höfuðborgarinnar getur kostað allt að 26 þúsund krónur. Ferðamálaráð borgarinnar mælir því ekki með að fólk taki bíl fyrir utan flugstöðina.
Víða um heim bjóða leigubílstjórar fast verð fyrir að skutla fólki milli flugvallar og miðborgar. Sá siður hefur hins vegar ekki skilað sér til Noregs. Alla vega ekki til stjórnenda leigubílastöðvanna sem hafa aðgang að stæðunum fyrir framan flugstöðvarbygginguna við Gardermoen. Leigubíll þaðan og inn til Óslóar getur nefnilega kostað á bilinu 500 til 1500 norskar krónur (8.500 til 26.000 íslenskar) og verðið er hæst á nóttunni samkvæmt frétt E24. Þetta breiða verðbil veldur Bente Holm, formanni ferðamálaráðs Óslóar, áhyggjum og segir hún að árlega berist fjöldi kvartana frá óánægðum viðskiptavinum leigubílastöðvanna.

Panta heldur á netinu

Til að komast hjá því að borga 30 þúsund krónur fyrir leigubílinn þá ráðleggur Bente Holm fólki að biðja leigubílstjórana um fast verð áður en lagt er í hann eða að panta sér bíl á netinu sem þá bíður eftir fólki við komuna til Noregs. Þeir sem það gera borga þá samkvæmt ákveðnum taxta. Einfaldasta leiðin er samt sú að taka hraðlestina, Flygtoget, en farmiði með henni kostar 170 norskar sem samsvarar um þrjú þúsund krónum.
Allt árið um kring fljúga Icelandair, Norwegian og SAS frá Keflavíkurflugvelli til Óslóar.