Fargjöld Icelandair og WOW air til Washington fara í sitthvora áttina

washington yfir

Á föstudaginn er jómfrúarferð WOW air til Washington á dagskrá. Miðar í fyrstu ferðir félagsins til borgarinnar hafa lækkað í verði síðastliðinn mánuð Á föstudaginn er jómfrúarferð WOW air til Washington á dagskrá. Miðar í fyrstu ferðir félagsins til borgarinnar hafa lækkað í verði síðastliðinn mánuð. Fargjöld Icelandair hafa hækkað á sama tíma.
Flugfarþegar eru vanari því að farmiðar hækki frekar en lækki í verði þegar styttist í brottför. Það er þó ekki algilt og nýjasta dæmið um það eru fyrstu ferðir WOW air til Baltimore-Washington flugvallar síðar í þessum mánuði.

Ólík verðþróun

Þann 2. apríl sl. kostuðu farmiðarnir vestur um haf með WOW air að meðaltali 20.618 krónur á tímabilinu 8. til 22.maí. Í dag er meðalverðið á þessu hálfsmánaðar  tímabili komið niður í 18.999 krónur samkvæmt úttekt Túrista. Verðlækkunin hjá WOW air nemur 7,9 prósentum. Á sama tíma hafa lægstu fargjöld Icelandair til Washington Dulles flugvallar hins vegar hækkað úr 45.183 kr. að meðaltali í 51.761 kr. sem jafngildir 14,6 prósent hækkun. Bilið á fargjöldum félaganna tveggja á þessu 15 daga tímabili hefur því breikkað þónokkuð síðastliðinn mánuð. WOW air flýgur níu sinnum til Washington á tímabilinu en Icelandair daglega. Í könnun Túrista voru aðeins könnuð fargjöld aðra leiðina, þ.e. frá Íslandi til Washington. 

Ýmis aukagjöld hjá WOW

Sá sem bókar farmiða með Icelandair til Bandaríkjanna má innrita tvær ferðatöskur, taka með sér 10 kíló í handfarangri, velja sér sæti og eins fylgja óáfengir drykkir um borð. Hjá WOW air kostar hver innrituð taska á leið til Washington hins vegar 4.999 krónur og undir handfarangur sem er þyngri en 5 kíló þarf að borga 2.999 krónur aðra leiðina. Þeir sem vilja tryggja sér ákveðið sæti um borð hjá WOW borga líka sérstaklega fyrir það og sama gildir um veitingarnar. 999 króna bókunargjald leggst einnig ofan á allar pantanir hjá íslenska lággjaldaflugfélaginu. Það getur því bæst töluvert ofan á farmiðaverðið hjá WOW air, t.d. ef ferðast á með meira en nokkurra kílóa tösku.