Bílaleigubílar í Orlandó kosta það sama við nýja heimahöfn Icelandair í Flórída

orlando skilit

Frá og með haustinu lenda flugvélar Icelandair á nýjum stað í Orlandó en það hefur ekki áhrif á bílaleigureikninga farþeganna. Frá og með haustinu lenda flugvélar Icelandair á nýjum stað í Orlandó. Það hefur hins vegar ekki áhrif á bílaleigureikninga farþeganna því verðskrárnar við Sanford flugvöll og Orlando International eru nákvæmlega þær sömu. Alla vega eins og staðan er í dag.
Þeir sem fara í frí til Flórída vilja sennilega allir hafa bíl til umráða jafnvel þó ætlunin sé að taka því rólega við sundalaugarbakka. Almenningssamgöngur á þessu svæði eru ekki fyrsta flokks og kostnaðurinn við að taka leigubíl nokkrum sinnum slagar upp í leigu á ágætis bíl.

Miklu stærri flughöfn

Undanfarin áratug hefur Icelandair flogið héðan til Sanford flugvallar í Orlandó en í lok sumars flytur félagið sig yfir á Orlando International sem er um fimmtíu kílómetrum sunnar og nær miðborginni. Sá flugvöllur er mun stærri en flughöfnin við Sanford því á síðasta ári flugu um 36 milljónir farþega til og frá Orlando International en í Sanford var farþegafjöldinn aðeins 2,2 milljónir.

Leigan sú sama

Þrátt fyrir þennan mikla stærðarmun þá eru verðskrár bílaleiganna við þessa tvo velli alveg eins. Bílar í flokknum Economy og Minivan kosta upp á krónu það sama samkvæmt verðkönnun Túrista á leiguverð í september, október og nóvember við báðar þessar flughafnir. Notast var við leitarvél Rentalcars sem knýr áfram bílaleiguleit Túrista. En verðkannanir Túrista hafa sýnt að sú leitarvél finnur oft mjög hagstætt verð á bílaleigubílum.

 
  Sanford, flokkur: „Economy“ Sanford , flokkur: „Minivan“ Orlando International, flokkur: „Economy“ Orlando International, flokkur: „Minivan“
18.-25.september 24.213 kr. 42.431 kr. 24.213 kr. 42.431 kr.
16.-23.október 24.213 kr. 44.033 kr. 24.213 kr. 44.033 kr.
20.-27. nóvember 24.213 kr. 44.033 kr. 24.213 kr. 44.033 kr.