Vinsældir Berlínar stóraukast á ný hjá íslenskum túristum

berlin s 860

Það sem af ári hefur Íslendingum hins vegar fjölgað um nærri tvo þriðju í höfuðborg Þýskalands. Ferðamannastraumurinn til höfuðborgar Þýskalands hefur aukist hratt síðustu ár en íslenskum túristum fækkaði þar í fyrra. Það sem af ári hefur Íslendingum hins vegar fjölgað um nærri tvo þriðju.
Fyrstu þrjá mánuði ársins keyptu Íslendingar rétt tæplega sex þúsund gistinætur á hótelum Berlínar sem er aukning um 63,6 prósent frá á sama tíma í fyrra. Þetta er mikill viðsnúningur frá síðasta ári því þá fækkaði íslenskum hótelgestum í borginni um nærri fimmtung á fyrsta ársfjórðungi og um tíund allt árið samkvæmt tölum frá ferðamálaráði borgarinnar. Árið 2013 fjölgaði hins vegar ferðamönnum frá Íslandi í Berlín um 40 prósent.

Sex prósent flugu til Berlínar

Það flugu um 33 þúsund Íslendingar til útlanda frá Keflavíkurflugvelli í mars samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Á sama tíma lentu um tvö þúsund íslenskir flugfarþegar á flugvöllum Berlínarborgar. Af því gefnu að langstærsti hluti þeirra Íslendinga sem heimsækja Berlín fari þangað flugleiðina frá Íslandi þá má segja að á fyrsta ársfjórðungi hafi sex af hverjum hundrað íslenskum flugfarþegum á Keflavíkurflugvelli verið á leiðinni til Berlínar.
Yfir vetrarmánuðina er WOW air eitt um flug milli Berlínar og Íslands en yfir aðalferðamannatímabilið bjóða einnig Airberlin og German Wings upp á áætlunarflug frá þýska höfuðstaðnum til Íslands.
TILBOÐ Í BERLÍN: SÉRKJÖR Á ORLOFSÍBÚÐUM FYRIR LESENDUR TÚRISTA