Farþegar frá Keflavík fá innanlandsflugið í Bandaríkjunum fyrir smáaura

delta 2

Þú getur flogið beint með Delta flugfélaginu héðan til New York og þaðan áfram fyrir nánast ekki neitt aukagjald. Í sumum tilvikum lækkar verðið ef þú ferð í tengiflug. Þú getur flogið beint héðan með Delta flugfélaginu til New York og þaðan áfram fyrir nánast ekki neitt aukagjald. Í sumum tilvikum lækkar verðið ef þú ferð í tengiflug.
Hið bandaríska Delta flýgur hingað daglega frá New York og þaðan býður flugfélagið upp á áætlunarflug um alla N-Ameríku. Vanalega borga farþegar Delta aukalega fyrir tengiflugið frá New York en fyrri hluta septembermánaðar geta farþegar, sem hefja ferðalagið á Keflavíkurflugvelli, fengið innanlandsflugið í Bandaríkjunum fyrir innan við þúsund krónur samkvæmt athugun Túrista. Þessi kjör eru þó aðeins í boði ef dvalið er úti í að lágmarki sjö daga.
Sem dæmi má nefna að ódýrustu fargjöld Delta til New York í september eru á 71.245 krónur en ef ferðinni er haldið áfram til Boston eða Washington þá bætast aðeins 750 krónur við fargjaldið en 950 krónur bætast við ef flogið er til Orlando. Bæði Icelandair flýgur til þessara þriggja borga en WOW til Boston og Washington. Ef stefnan er sett á borgir fjær New York bætist meira við farmiðaverðið hjá Delta.

Farið lækkar ef keypt er tengiflug

Það er líka athyglisvert að farþegi sem bókar far með Delta héðan til Toronto, með millilendingu í New York, borgar minna fyrir farmiðann með tengiflugi en án. Þannig kostar farmiði til Toronto 3. til 12. september 70.095 krónur en farið til New York þessa sömu daga kostar það 71.245 krónur. Delta lækkar s.s. farmiðann um 1.150 krónur ef keypt er tengiflug til Kanada.