Helmingi fleiri ferðir og ferðamönnum fjölgaði um þrjá fjórðu

bna fani

Það var flogið ríflega hundrað sinnum oftar héðan til Bandaríkjanna í maí en á sama tíma í fyrra og ferðamönnum þaðan fjölgaði umtalsvert. Það var flogið ríflega hundrað sinnum oftar héðan til Bandaríkjanna í maí en á sama tíma í fyrra og ferðamönnum þaðan fjölgaði umtalsvert.
Í síðasta mánuði fjölgaði ferðamönnum hér á landi um ríflega 24 þúsund og nam aukningin 36 prósentum samkvæmt Ferðamálastofu. Bandarískir túristar stóðu undir meira en þriðjungi þessarar aukningar því þeim fjölgaði um nærri níu þúsund eða 76 prósent.
Yfir sumarmánuðina eru Bandaríkjamenn fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi og það eru því mikil tíðindi að þeim hafi fjölgað um þrjá fjórðu í einum mánuði.

WOW og Delta bætast við

Líklegasta skýringin á þessari miklu aukningu er sú að framboð á flugi milli Íslands og Bandaríkjanna jókst um 47 prósent í síðasta mánuði samkvæmt talningum Túrista. Í maí í fyrra var Icelandair eina flugfélagið sem bauð upp á áætlunarflug milli landanna tveggja og samtals flugu vélar félagsins 218 sinnum frá Keflavík til bandarískra flugvalla. Núna buðu Delta og WOW air einnig upp á flug vestur um haf og samtals fór WOW air 36 ferðir til Boston og Washington og frá 2.maí flaug Delta hingað daglega frá New York. Félögin tvö bættu því við 66 ferðum héðan til Bandaríkjanna í síðasta mánuði.

Um 18.000 flugsæti

Á sama tíma jók Icelandair framboð á flugi til allra sinna áfangastaða í Bandaríkjunum nema Orlando og bætti við áætlunarflugi til Portland. Samtals fjölgaði flugferðum Icelandair til Bandaríkjanna um 37 og félögin þrjú buðu samtals upp á 321 áætlunarferð frá bandarískum flugvöllum til Íslands í maí. Eins og áður segir voru ferðirnar 218 á sama tíma í fyrra og aukningin nemur því 47 prósentum. Gera má ráð fyrir að framboð á flugsætum hafi aukist um ríflega 18 þúsund. Það skilaði sér í því að hingað komu nærri níu þúsund fleiri bandarískir ferðamenn.
Hafa ber í huga að Ferðamálastofa telur farþega á leið frá landinu og þeir sem hafa komið hingað rétt fyrir síðustu mánaðarmót eru því ekki taldir fyrr en þeir fljúga héðan síðar í sumar.