WOW air skoðar flug til lítils flugvallar í New York fylki

Forsvarsmenn WOW air leita nýrra áfangastaða og einn af þeim flugvöllum sem fyrirtækið er í viðræðum við er í Long Island í New York fylki.
Í mars síðastliðnum hófst áætlunarflug WOW air til Bandaríkjanna og félagið býður nú upp á ferðir allt árið um kring til Boston og Washington. Áður hafði staðið til að New York yrði annar af tveimur fyrstu áfangastöðum félagsins vestanhafs en samkvæmt heimildum Túrista fékk íslenska flugfélagið hins vegar ekki þá afgreiðslutíma sem óskað var eftir á Newark flugvelli sem liggur skammt frá New York. En flughafnirnar í nágrenni við heimsborgina munu vera þéttsetnir og erfitt fyrir nýja aðila að komast þar að.

Nýir áfangastaðir kynntir síðar

Nú líta forsvarsmenn WOW air hins vegar til mun minni flugvallar í New York fylki því samkvæmt fréttavefnum Long Island Business News eru viðræður í gangi milli íslenska flugfélagsins og stjórnenda Long Island MacArthur flugvallar. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air, staðfestir við Túrista að Long Island MacArthur sé einn af mörgum flugvöllum sem félagið sé að skoða. „Nýir áfangastaðir fyrir árið 2016 verða tilkynntir síðar,“ bætir hún við.

Jafn fjölmennir Íslendingum

Long Island MacArthur flugvöllur er í rúmlega 80 kílómetra fjarlægð frá Manhattan og tilheyrir bænum Islip. Á síðasta ári fóru um 1,3 milljónir farþega um flugvöllinn og hefur þeim fækkað umtalsvert frá aldarmótum. Bæjaryfirvöld í Islip vinna að því að laða fleiri flugfélög til bæjarins og í Long Island Business News er haft er eftir Angie Carpenter, bæjarstjóra, að hugsanleg koma WOW air gæti skapað mörg ný tækifæri og hún segist því vera mjög spennt fyrir verkefninu.
Íbúar Islip eru ríflega 330 þúsund talsins sem er álíka fjöldi og býr hér á landi. Það tekur um einn og hálfan tíma að komast frá flugvelli bæjarins og inn til New York borgar.