Helsinki

Nokkrir af hápunktunum í höfuðborg Finnlands.

helsinki sjor
  • Almennt
  • Sjá og gera
  • Matur og drykkur
  • Gagnlegt

Almennt

Af höfuðborgum Norðulandanna þá eru íslenskir ferðamenn sennilega sjaldnast á ferðinni í Helsinki. Núna er hins vegar kominn tími á að rétta hlut borgarinnar því að sögn heimamanna hefur stemningin  í borginni aldrei verið betri. Finnskt veitingafólk hefur víst sjaldan verið í eins miklu stuði, listasöfnin eru fjölbreytt og í göngufæri hvort við annað og í verslununum má finna urmul af finnskri hönnun sem hefur fyrir löngu öðlast virðulega sess. Um þröngar, hlaðnar götu mjakast svo sporvagnar framhjá tignarlegum kirkjum, fallegum torgum og grænum breiðgötum. Já, Helsinki er sniðin fyrir góða helgarferð og þegar kalt verður í veðri þá er aldrei langt í næstu sauna.
Icelandair býður upp á flug til Helsinki alla daga vikunnar.

 

Sjá og gera

Suomenlinna – Sveaborg

Virkið út í Viðey þeirra Helsinkibúa er í dag friðsæll staður sem 850 manns kalla heimili sitt og þeir sem búa á fastalandinu sigla þangað á góðviðrisdögum til að fara í lautarferð eða busla í sjónum. Út í Suomenlinna er líka ágætis úrval af matsölustöðum og kaffihúsum en undirstaðan í kúnnahópnum eru ferðamennirnar sem þangað streyma enda er virkið á heimsminjaskrá Unesco og einn vinsælasti áfangastaður túrista í Finnlandi.
Um miðja átjándu öldina reistu Svíar, sem þá stjórnuðu Finnlandi, Suomenlinna sem kallast á sænsku Sveaborg eða Svíavirki. Síðan þá hafa hinar sterkbyggðu byggingar á eyjunni verið hernaðarlega mikilvægar fyrir hvern þann sem farið hefur með völdin í Finnlandi.
Heimsókn út í Suomenlinna er næstum því skyldustopp í ferðalagi um Helsinki og sérstaklega á sumrin. Á veturnar getur verið nokkuð napurt út í eyjunni og þá er líka minna við að vera og margir matsölustaðir lokaðir. Það tekur um korter að sigla út í eyjuna frá miðborgarkajanum og miðar eru seldir í sjálfsala á bryggjunni. Reikna má með að minnsta kosti 2-3 tímum í reisuna.
Suomenlinna

Dómkirkjan á hæðinni

Við Þingtorgið, stuttan spöl frá höfninni, stendur hvít kirkja með grænu hvolfþökum. Það voru Rússar sem létu reisa kirkjuna um miðja nítjándu öld og allar götur síðan hefur hún verið eitt helsta kennileiti borgarinnar. Á sumrin er mikið líf á torginu en þar eru þó öllu rólegra þegar kalt er úti. Kirkja sjálf er hins vegar opin fyrir þá sem vilja skoða.
Dómkirkjan, Unioninkatu 29. Opið: 9–18 alls daga en opið til miðnættis á sumrin.

Sauna

Heimsókn í finnska saunu kryddar ferðalagið óneitanlega því hitanum slær hjá Finna ört. Hér má nálgast upplýsingar um helstu staðina innan borgarmarkanna til að komast í ósvikna finnska saunu.

Eteläesplanadi

Þú kemst ekki hjá því að eiga leið um Espan Lava þegar þú ert í Helsinki. Þetta hjarta borgarinnar hýsir ekki aðeins nokkrar af þekktustu verslunum borgarinnar (Ittalla, Marimekko, Stockmann og Artek) því þangað leita líka borgarbúar til að sýna sig og sjá aðra. Í garðinum á milli gatnanna troða reglulega upp listamenn og íslenski fáninn blaktir venjulega við miða götuna enda sendiráð okkar þar á besta stað.

Söfnin

Það er nóg við að vera fyrir þá sem vilja gera söfnum borgarinnar góð skil og mikill kostur að mörg þeirra eru í miðborginni og stutt á milli. Ataneum hýsir stærsta safn listaverka í Finnlandi, Kiasma nýlistasafnið er þar rétt hjá og Amos má skoða þekktasta einkasafn Finna en þar eru líka boðstólum fjölbreyttar sýningar. Hönnunarsafnið er sérstaklega spennandi staður fyrir þá sem vilja kynna sér þann hluta í atvinnulífi Finna og en þeir sem vilja gera Alvar Aalto betri skil verða að fara út fyrir miðborgina þar sem safn honum til heiðurs er til húsa. Hér má nálgast ítarlegri upplýsingar um þau 80 söfn sem finna má á í Helsinki.

 

Matur og drykkur

The Cock – matur allan daginn

Ennþá eru það bara heimamenn sem þekkja þennan nýja veitingastað skammt frá ferjuhöfninni í miðborg Helsinki. Hér er opið frá morgni og fram á nótt og tekur matseðillinn breytingum eftir því sem líður á daginn. Á morgnana er serveraður alls kyns morgunmatur og hressing (t.d. croque monsieur og bacon og egg á 8 evrur), í hádeginu er einn réttur og fylgir súpa, sallat og brauð (12 evrur). Réttir kvöldsins taka mið af árstíðunum en þar er alltaf að finna einn góðan kjötrétt og marga smáa og er mælt með því að fólk panti nokkra rétti og deili með sessunautunum. Bar hússins er svo opinn allan daginn og á laugardögum er boðið upp á bröns.
The Cock, Fabininkatu 17. Opið virka daga frá 7:30 og fram á kvöld en á laugardögum frá 12. Lokað á sunnudögum.

Skiffer – Örþunnir pizzubotnar

Það er alls staðar hægt að finna pizzustaði sem bjóða upp á hefðbundnar útfærslur á þessum vinsæla rétti. Skiffer í Helsinki er svo sannarlega ekki einn af þessum því áleggið sem sett er ofan á örþunna, brakandi botnana er óvenjulega sett saman. Hér eru pizzur með Chili con care, Surf and turf (chorizo og humarhalar) og fleira góðgæti sem fær mann til að óska þess að staðir eins og Skiffer væru normið, en ekki algjör undantekning, í pizzugeiranum.
Skiffer, Erottaja 11

Sea Horse – Finnsk klassík

Á einu best þekkta veitingahúsi Helsinki er finnskum heimilismat gerð góð skil. Á matseðlinum er að finna alvöru finnskar kjötbollur, hreindýrafillet, piparsteik og svo fiskrétti þar sem síld og lax eru aðalhlutverkum. Þeir sem vilja eitthvað léttara geta fengið sér samlokur hússins. Útlit Sea Horse hefur haldist nær óbreytt í marga áratugi og þangað leita því ófáir ferðamenn en Finnar sjálfir halda tryggð við staðinn. Þeir sem vilja prófa eitthvað sérstaklega finnskt ættu að panta sér steiktu síldina með gráðosta- og rauðlaukskremi. Hljómar einkennilega en bragðast mjög vel. Steikti bændaosturinn með sultunni er líka ljúffengur eftirréttur.
Aðalréttirnir eru á 19 til 40 evrur (3000 til 6000 krónur).
Ravintola Sea Horse, Kapteeninkatu 11

Sunn – Útsýni yfir kirkjuna

Dómkirkjan í Helsinki er eitt helsta kennileiti borgarinnar og þeir sem vilja virða hana fyrir sér á meðan þeir fá sér að borða ættu að panta borð við gluggann á veitingastaðnum Sunn við Þingtorgið. Á matseðlinum eru að finna úrval af kjöt, fisk og grænmetisréttum og oftast með norrænu ívafi. Aðalréttirnir kosta á bilinu 3000 til 4500 kr. Í hádeginu er fastur þriggja rétta matseðill á um 6000 kr. og um helgar er boðið upp á brunch.
Sunn, Aleksanterinkatu 26

Kaffi

Kaffihús systranna

Það er mikilvægt að fá gott kaffi við og við og sérstaklega þegar deginum í varið í að ganga um erlenda stórborg. Systurnar Kaisa og Anu hafa síðustu ár eignast dyggan kúnnahóp meðal kaffiþyrstra í Helsinki og nú má finna staðina þeirra SIS deli+café á víð og dreif um borgina. Það er boðið upp fínt úrval af finnsku kruðeríi með og einnig má finna þar samlokur og þeir sem vilja kaupa einhverjar sælkeravörur til að taka með heima geta vafalítið fundið eitthvað hjá systrunum.
– SIS deli+café er að finna á eftirtöldum stöðum í Helsinki: Kalevankatu 4 (miðborgin), Korkeavuorenkatu 6, Pursimiehenkatu 7 og Topeliuksenkatu 3.

Gagnlegt

Til og frá flugvelli

Það kostar 5 evrur að taka hefðbundinn strætó (nr 615) frá flugvellinum og niður í bæ og ferðalagið tekur um 40 mínútur. Flugrútur Finnair fara leiðina á hálftíma og miðinn með þeim kostar 6,5 evrur. Báðir vagnar beint fyrir utan flugstöðina. Frá 1. júlí verður hins vegar hægt að taka lest frá flugvellinum og niður í bæ.
Leigubíll kostar 45 til 50 evrur og er því mun dýrari kostur jafnvel þó nokkrir ferðist saman.

Þjórfé

Þjónustufólk í Finnlandi slær auðvitað ekki hendi á móti þjórfé en reiknar ekki heldur með því.

Kranavatn

Það er óþarfi að eyða peningum í hefðbundið vatn í Finnlandi því það sem kemur frítt út úr krananum er ljómandi gott.

Hótel

Bílaleiga