The Cock – matur allan daginn
Ennþá eru það bara heimamenn sem þekkja þennan nýja veitingastað skammt frá ferjuhöfninni í miðborg Helsinki. Hér er opið frá morgni og fram á nótt og tekur matseðillinn breytingum eftir því sem líður á daginn. Á morgnana er serveraður alls kyns morgunmatur og hressing (t.d. croque monsieur og bacon og egg á 8 evrur), í hádeginu er einn réttur og fylgir súpa, sallat og brauð (12 evrur). Réttir kvöldsins taka mið af árstíðunum en þar er alltaf að finna einn góðan kjötrétt og marga smáa og er mælt með því að fólk panti nokkra rétti og deili með sessunautunum. Bar hússins er svo opinn allan daginn og á laugardögum er boðið upp á bröns.
– The Cock, Fabininkatu 17. Opið virka daga frá 7:30 og fram á kvöld en á laugardögum frá 12. Lokað á sunnudögum.
Skiffer – Örþunnir pizzubotnar
Það er alls staðar hægt að finna pizzustaði sem bjóða upp á hefðbundnar útfærslur á þessum vinsæla rétti. Skiffer í Helsinki er svo sannarlega ekki einn af þessum því áleggið sem sett er ofan á örþunna, brakandi botnana er óvenjulega sett saman. Hér eru pizzur með Chili con care, Surf and turf (chorizo og humarhalar) og fleira góðgæti sem fær mann til að óska þess að staðir eins og Skiffer væru normið, en ekki algjör undantekning, í pizzugeiranum.
– Skiffer, Erottaja 11
Sea Horse – Finnsk klassík
Á einu best þekkta veitingahúsi Helsinki er finnskum heimilismat gerð góð skil. Á matseðlinum er að finna alvöru finnskar kjötbollur, hreindýrafillet, piparsteik og svo fiskrétti þar sem síld og lax eru aðalhlutverkum. Þeir sem vilja eitthvað léttara geta fengið sér samlokur hússins. Útlit Sea Horse hefur haldist nær óbreytt í marga áratugi og þangað leita því ófáir ferðamenn en Finnar sjálfir halda tryggð við staðinn. Þeir sem vilja prófa eitthvað sérstaklega finnskt ættu að panta sér steiktu síldina með gráðosta- og rauðlaukskremi. Hljómar einkennilega en bragðast mjög vel. Steikti bændaosturinn með sultunni er líka ljúffengur eftirréttur.
Aðalréttirnir eru á 19 til 40 evrur (3000 til 6000 krónur).
– Ravintola Sea Horse, Kapteeninkatu 11
Sunn – Útsýni yfir kirkjuna
Dómkirkjan í Helsinki er eitt helsta kennileiti borgarinnar og þeir sem vilja virða hana fyrir sér á meðan þeir fá sér að borða ættu að panta borð við gluggann á veitingastaðnum Sunn við Þingtorgið. Á matseðlinum eru að finna úrval af kjöt, fisk og grænmetisréttum og oftast með norrænu ívafi. Aðalréttirnir kosta á bilinu 3000 til 4500 kr. Í hádeginu er fastur þriggja rétta matseðill á um 6000 kr. og um helgar er boðið upp á brunch.
– Sunn, Aleksanterinkatu 26
Kaffi
Kaffihús systranna
Það er mikilvægt að fá gott kaffi við og við og sérstaklega þegar deginum í varið í að ganga um erlenda stórborg. Systurnar Kaisa og Anu hafa síðustu ár eignast dyggan kúnnahóp meðal kaffiþyrstra í Helsinki og nú má finna staðina þeirra SIS deli+café á víð og dreif um borgina. Það er boðið upp fínt úrval af finnsku kruðeríi með og einnig má finna þar samlokur og þeir sem vilja kaupa einhverjar sælkeravörur til að taka með heima geta vafalítið fundið eitthvað hjá systrunum.
– SIS deli+café er að finna á eftirtöldum stöðum í Helsinki: Kalevankatu 4 (miðborgin), Korkeavuorenkatu 6, Pursimiehenkatu 7 og Topeliuksenkatu 3.