Hópfjármögnun til hjálpar Grikkjum

grikkland fani

Breskur skósali vonast til að safna 235 milljörðum króna næstu sjö daga og færa grískum stjórnvöldum. Þeir sem láta fé af hendi rakna eigi von á þakklætisvotti frá grísku þjóðinni.
Gríska ríkisstjórnin hefur tilkynnt að hún geti ekki greitt 1,6 milljarð evra í afborgun af skuld sinni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Afborgunin er á gjalddaga í dag og hafa ráðamenn ESB, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Grikklands verið á neyðarfundum síðustu daga og vikur vegna stöðunnar en viðræðurnar hafa engum árangri skilað.

Fetaostur og ouzo í laun

Thom Feeney, breskur skósali, hugsar hinsvegar í lausnum og í fyrradag efndi hann til hópfjármögnunar til hjálpar gríska ríkissjóðnum.
Markmiðið er að safna fyrir þessari 1,6 milljarða evru afborgun (um 235 milljarðar íslenskra króna) og færa Grikkjum. Þeir sem leggja málefninu lið fá alls kyns gjafir frá Grikklandi. Þeir sem gefa 3 evrur eiga von á póstkorti frá forsætisráðherra Grikklands, fyrir sex evru framlag fæst fetaostur og salat og þjóðaráfengið ouzo fer til þeirra sem gefa 10 evrur. Grikklandsreisur og jafnvel ótakmarkað þakklæti grísku þjóðarinnar er í boði fyrir þá sem gefa miklu meira. Nú þegar hafa safnast um 35 milljónir króna sem er lítið brot af þeim 235 milljörðum sem markið er sett á en ennþá eru sjö dagar til stefnu.
Thom Feeney segist sjálfur hafa gefið 10 evrur og bendir á að ef þriðji hver Evrópubúi fylgi fordæmi hans þá dugi það til að ná takmarki söfnunarinnar.
Þeir sem vilja leggja málefninu lið geta lagt sitt að mörkum hér