Miklar breytingar á flugfargjöldum til Póllands

wizz stm

Verð á farmiðum héðan til Gdansk og Varsjár hefur sveiflast upp og niður síðustu vikur. Verð á farmiðum héðan til Gdansk og Varsjár hefur sveiflast upp og niður síðustu vikur. 
Síðustu ár hefur WOW air verið eina félagið sem boðið hefur upp á reglulegar ferðir héðan til Póllands en allt frá stofnun hefur höfuðborgin Varsjá verið hluti að leiðakerfi íslenska flugfélagsins. Þann 16. apríl sl. tilkynntu hins vegar forsvarsmenn Wizz Air, eins stærsta lággjaldafélags Evrópu, að þeir myndu hefja áætlunarflug hingað til lands frá pólsku borginni Gdansk um miðjan júní og hófst miðasala sama dag.
Þó Gdansk sé 300 km norðan við höfuðborgina þá hafði þetta nýja áætlunarflug mikil áhrif á fargjöld WOW air til Varsjár því viku síðar hafði meðalverð á farmiðum WOW air til borgarinnar í sumar lækkað úr 35.527 krónum niður í 25.221 kr., aðra leiðina. Nam lækkunin 28 prósentum líkt og Túrist greindi frá

Nú lækkar verðið hjá Wizz

Á sama tíma og verðið féll í Póllandsflugi WOW air þá seldust kynningarfargjöld Wizz Air upp og var meðalverðið hjá félaginu ríflega 20 þúsund krónur. Síðastliðnar fimm vikur hefur þróunin hins vegar verið á annan veg því nú hafa farmiðar WOW air hækkað um tíund en hjá Wizz Air hafa þeir lækkað um átján prósent samkvæmt nýrri úttekt Túrista. Farmiði, aðra leiðina, til Varsjár með WOW air í sumar kostar í dag að jafnaði 27.805 krónur en hjá Wizz Air er meðalverðið komið niður í 16.953 krónur eins og sjá má á súluritinu hér fyrir neðan. Hjá báðum félögum þurfa farþegar að greiða fyrir innritaðan farangur og félögin eru þau einu á Keflavíkurflugvelli sem rukka aukalega fyrir handfarangur.