Mismunandi mörk á vínanda í blóði bílstjóra

vegur 860

Bílstjórum eru settar breytilegar skorður varðandi drykkju. Sumstaðar má fá sér smá og annarsstaðar ekki dropa. Hér má sjá hversu mikið áfengi má vera í blóði þess sem situr undir stýri í hinum ýmsu löndum.
Akstur undir áhrifum áfengis eða lyfja er ein af þremur algengustu orsökum banaslysa í umferðinni og sá sem ekur ölvaður er talinn vera um 90 sinnum líklegri til að lenda í banaslysi en sá sem ekki er undir áhrifum samkvæmt því sem segir á vef Samgöngustofu. Þar kemur jafnframt fram að hér á landi megi vínandamagn í blóði ökumanns ekki nema meira en 0,5 prómillum. Mörg lönd setja mörkin við sama magn en sum leyfa meira og önnur minna eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Kaffi og dans hjálpar ekki

Eins og gefur að skilja er alltaf best að setjast ekki undir stýri eftir neyslu áfengra drykkja. En samkvæmt heimasíðu FÍB þá myndi sá sem drekkur einn lítinn bjór eða 2,8 cl af sterku víni mælast með vínandamagn upp á 0,2 prómill. Tveir til þrír bjórar jafnast á við 0,5 prómill. Sá sem drekkur svo mikið yrði því tekinn fyrir ölvunarakstur hér á landi.
Það tekur hins vegar fólk mislangan tíma að losna við áfengi úr blóðinu og áhrifin hverfa helmingi hraðar hjá 100 kílóa manni í samanburði við þann sem er 50 kíló samkvæmt heimasíðu danska umferðaráðsins. Þar segir jafnframt að kaffidrykkja, ferskt loft, dans eða önnur hreyfing flýti ferlinu ekki neitt.

Reglur um hámark vínanda í blóði bílstjóra (heimild Iard.org):
Ástralia: 0,5 prómill
Austurríki: 0,5 prómill
Bandaríkin: 0,8 prómill
Bretland: 0,8 prómill (0,5 í Skotlandi)
Belgía: 0,5 prómill
Danmörk: 0,5 prómill
Finnland: 0,5 prómill
Frakkland: 0,5 prómill
Grikkland: 0,5 prómill
Holland: 0,5 prómill
Ísland: 0,5 prómill
Írland: 0,5 prómill
Ítalía: 0,5 prómill
Japan: 0,3 prómill
Kanada: 0,5 til 0,8 prómill
Króatía: 0,5 prómill
Noregur: 0,2 prómill
Pólland: 0,2 prómill
Portúgal: 0,49 prómill
Rússland: 0 prómill
Serbía: 0,3 prómill
Spánn: 0,5 prómill
Svíþjóð: 0,2 prómill
Sviss: 0,5 prómill
Taíland: 0,5 prómill
Tékkland: 0 – 0,8 prómill
Tyrkland: 0,5 prómill
Þýskaland: 0,5 prómill