Þotur íslensku flugfélaganna vel nýttar í maí

saeti icelandair wow

Vélar Icelandair og WOW air voru vel nýttar í maí en félögin notast við ólíkar aðferðir til að reikna út sætanýtinguna. Vélar Icelandair og WOW air voru vel nýttar í maí en félögin notast við ólíkar aðferðir til að reikna út sætanýtinguna. 
Í maí síðastliðnum stóðu Icelandair og WOW air undir nærri átta af hverjum tíu áætlunarferðum frá Keflavíkurflugvelli. Bæði félög juku framboð á ferðum í mánuðinum umtalsvert frá sama tíma í fyrra. Aukningin hjá Icelandair skýrist þó m.a. af því að fella þurfti niður ferðir hjá félaginu sl. vor vegna yfirvinnubanns og verkfalls flugmanna.

Ekki sama formúla

Þrátt fyrir aukna umferð á vegum flugfélaganna tveggja þá voru farþegarými vélanna vel nýtt í maí. Hjá WOW air var 86 prósent sætanna skipuð og hjá Icelandair var hlutfallið 79,7 prósent en það var 77,5 prósent í maí í fyrra. Þess ber þó að geta að forsvarsmenn íslensku flugfélaganna beita mismunandi aðferðum til að reikna út nýtingu sætanna. Hjá Icelandair er hlutfallið reiknað út frá fjölda floginna kílómetra og vega þá flugferðir þyngra þegar flogið er lengra, t.d. til N-Ameríku. Þessa aðferð nota flugfélög sem skráð eru á hlutabréfamarkað og einnig eru frífarþegar ekki teknir með. Hjá WOW er sætanýtingin hlutfall frátekinna sæta um borð í vélum félagsins en að sögn Skúla Mogensen, forstjóra félagsins, eru frímiðar hjá WOW ekki það margir að þeir hafi áhrif á sætanýtinguna.

easyJet með enn betri nýtingu

Breska lággjaldaflugfélagið easyJet er umsvifamikið í Íslandsflugi og í maí voru 91,6 prósent sætanna um borð í öllum vélum félagsins seld. Þetta hlutfall á við allar ferðir félagsins en ekki bara í fluginu til og frá Íslandi. Hjá tveimur stærstu flugfélögum Norðurlandanna var þróunin í maí hins vegar misjöfn, hjá Norwegian jókst hlutfall seldra sæta umtalsvert og var 84,9 prósent en nýtingin féll hjá SAS úr 77 prósentum niður í 73,6 prósent.