Sólarlandaferðir rokseljast

kanari strond
Íslendingar vilja í sólina á suðrænum slóðum þessa dagana og forsvarsmenn ferðaskrifstofanna segja söluna ganga mun betur en í fyrra.

Íslendingar vilja í sólina á suðrænum slóðum þessa dagana og forsvarsmenn ferðaskrifstofanna segja söluna ganga mun betur en í fyrra.
Það hefur selst mun meira af sólarlandaferðum í ár en á sama tíma í fyrra. Á suma áfangastaði eru fá sæti á lausu í júlí þrátt fyrir að framboð á ferðum hafi aukist. Forvarsmenn ferðaskrifstofanna eru sammála um að slæmt tíðarfar síðustu misseri hafi mikið að segja og margir Íslendingar vilji til heitari landa í sumarfríinu. 

Getur verið erfitt að finna lausa gistingu

„Við höfum selt tæplega 30% meira en í fyrra“, segir Tómas Gestsson, framkvæmdastjóri Heimsferða, aðspurður um sölu á sólarlandaferðum í ár. „Sumir áfangastaðir eru til dæmis nánast að fyllast í júlí en það er meira af lausum sætum í ágúst“. Guðrún Sigurgeirsdóttir frá Vita segir einnig að salan í júlí og ágúst sé meiri í ár en í fyrra og telur skýringuna meðal annars að finna í slæmu tíðarfari síðustu misseri. „Hins vegar bókar fólk seint og aðalvandamálið er að finna laus hótel á síðustu stundu, t.d. á Marllorca sem er nú einu sinni einn allra vinsælasti ferðamannastaðurinn,“ bætir Guðrún við.

Vilja íslenska barnaklúbba

Ferðaskrifstofan Nazar býður upp á Tyrklandsreisur frá öllum Norðurlöndunum og að sögn Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóra, þá hefur salan á Íslandi gengið vel á meðan markaðurinn hafi verið þyngri á hinum Norðurlöndunum. Hann segir eftirspurnina þar hins vegar hafa tekið við sér enda hafi sumarið verið frekar kalt og votviðrasamt í Skandinavíu. „Þetta er annað árið í röð sem við bjóðum upp á sólarlandaferðir frá Íslandi og í ár höfum við selt 60 prósent fleiri ferðir en á sama tíma í fyrra en við höfum líka aukið framboðið umtalsvert. Við gerum ráð fyrir að fljúga með um fjögur þúsund Íslendinga til Tyrklands í ár og ætlum að fjölga þeim enn frekar á næsta ári.“ Kemal bætir því við að Íslendingar bóki oftast þau hótel þar sem boðið er upp á íslenska barnaklúbba og það sé ánægjulegt að sjá að Íslendingar kunni að meta þá þjónustu. 

Mikil samkeppni

„Salan gengur mjög vel, framar vonum og greinilegt að langur vetur og kalt vor eru að hafa þau áhrif að fólk þráir að komast í sól í sumarfríinu. Sumarið í fyrra er líka að hjálpa okkur þar sem fólk man eftir rigningarsumrinu mikla“, segir Jónína Birna Björnsdóttir hjá Ferðaskrifstofu Íslands. „En framboðið er líka mun meira en í fyrra svo það er heilmikil samkeppni.“