Spurningar og svör: Lasse Sandaker-Nielsen frá Norwegian

norwegian lasse sandaker nielsen

Vöxtur WOW air í Bandaríkjunum á sér eðlilegar skýringar að mati talsmanns þriðja stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu. Vöxtur WOW air í Bandaríkjunum kemur framkvæmdastjóra hjá Norwegian ekki á óvart. Túristi lagði nokkrar spurningar fyrir einn af stjórnendum þessa þriðja stærsta lággjaldaflugfélags Evrópu. 
Á flugvöllunum í Ósló, Kaupmannahöfn og Stokkhólmi er Norwegian annað umsvifamesta flugfélagið á eftir SAS. Vöxtur þessa norska lággjaldaflugfélags hefur verið mjög hraður síðustu ár og fá fyrirtæki eru eins áberandi í skandinavískum fjölmiðlum.
Félagið hefur verið að hasla sér völl í áætlunarflugi til Bandaríkjanna síðustu ár og var fyrsta evrópska lágjaldaflugfélagið sem bauð upp á reglulegar ferðir yfir hafið. Nú fetar íslenska lággjaldaflugfélagið WOW air sömu braut og Norwegian er því ekki lengur sér á báti. Túristi lagði nokkrar spurningar fyrir Lasse Sandaker-Nielsen, framkvæmdastjóra samskiptasviðs Norwegian, um íslensku flugfélögin tvö og samkeppnina við þau í flugi vestur um haf.

WOW fór nýlega jómfrúarferð sína til Bandaríkjanna og nú þegar stefnir félagið á aukin umsvif þar í landi og í Kanada. Kemur þér á óvart að WOW stækki svona hratt í Norður-Ameríku?
Í allt of langan tíma hafa stóru flugfélögin ráðið markaðnum í flugi yfir Atlantshafið og fargjöldin hafa verið há. Flug okkar hefur fengið virkilega góðar undirtektir og ekki síst meðal Bandaríkjamanna. Það er skýrt merki um að samkeppnin á þessum flugleiðum hefur verið alltof lítil. Við bjóðum upp á nýjan valkost sem fólki líkar við. Það kemur mér því ekki á óvart að WOW air fái líka góðar viðtökur.

Forsvarsmenn WOW air segja lítla yfirbyggingu vera lykilinn að því að geta boðið lág fargjöld. Fyrirtækið er t.a.m. ekki með söluskrifstofur í Bandaríkjunum öfugt við ykkur. Skipta söluskrifstofurnar miklu máli fyrir Norwegian?
Við seljum meira en áttatíu prósent af miðunum á netinu. Þeim mun minni sem skrifstofurnar eru, því lægri verður stjórnunarkostnaðurinn og þar með fargjöldin.

Síðustu ár hefur Icelandair fjölgað áfangastöðum í Bandaríkjunum og Kanada hratt en í N-Ameríku er oft talað um félagið sem lággjaldaflugfélag. Lítur þú íslensku flugfélögin mismunandi augum sem samkeppnisaðila?
Í fluggeiranum er allir í samkeppni.

Er það eitthvað sem þið getið lært af íslensku flugfélögum og þau af ykkur?
Öll fyrirtæki sem njóta velgegni geta lært eitthvað af öðrum í sömu stöðu.

Í dag flýgur Norwegian til Íslands frá Bergen og Ósló. Eru uppi áform um að auka framboðið?
Við endurmetum sífellt leiðakerfi okkar og hingað til hefur eftirspurnin eftir Íslandsflugi okkar verið ásættanleg.