Stefnir í slag milli íslensku flugfélaganna í Montreal

montreal stor

Strax í byrjun næsta árs lítur út fyrir að bæði Icelandair og WOW air muni hefja áætlunarflug til næst fjölmennstu borgar Kanada. Í byrjun næsta árs lítur út fyrir að bæði Icelandair og WOW air muni hefja áætlunarflug til næst fjölmennstu borgar Kanada. Það er einstakt að tvö íslensk flugfélög hefji áætlunarflug til sömu borgar á sama tíma líkt og nú stefnir í. 
Fyrir tæpum mánuði síðan sagði Túristi frá því að orðrómur væri uppi um að Icelandair myndi hefja flug til Montreal í Quebec fylki í Kanada í nánustu framtíð. Þá vildu forsvarsmenn Icelandair ekki tjá sig um málið en fjórum dögum síðar kom fram í yfirlýsingu frá félaginu að viðræður stæðu yfir við flugmálayfirvöld borgarinnar um áætlunarferðir þangað. Í lok síðustu viku var svo haft eftir Skúla Mogensen, forstjóra WOW air, á Mbl.is að í byrjun næsta árs myndi WOW air hefja beint flug til Montreal. Það er því útlit fyrir að ekki aðeins eitt heldur tvö flugfélög hefji áætlunarflug héðan til þessarar næst fjölmennustu borgar Kanada á næst ári.

WOW allt árið

Það liggur hins vegar ekki fyrir hvort Icelandair muni hefja flug til Montreal en eins og fyrr segir áformar WOW air að fara jómfrúarferð sína til borgarinnar eftir áramót og fljúga 4 til 5 ferðir í viku. Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, segir í svari til Túrista að ætlunin sé að starfrækja þessa flugleið allt árið um kring. Hvort Icelandair leggi eins mikið undir í Montreal kemur í ljós.

Samkeppni frá stórum flugfélögum

Leiðakerfi Icelandair hefur um langt skeið byggt á því að ferja fólk milli Evrópu og N-Ameríku með millilendingu á Keflavíkurflugvelli. WOW air byggir nú upp samkonar leiðakerfi og býður í dag upp á flug milli tveggja bandarískra flugvalla og átján evrópskra með stuttu stoppi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Á Montreal-Trudeau flugvelli býður íslensku félaganna hins vegar hörð samkeppni í flugi til og frá Evrópu því þaðan er í dag boðið upp á beint flug til 28 evrópskra flugvalla og þar af eru 14 þeirra hluti að leiðakerfi Icelandair eða WOW air. Frá Montreal er hins vegar ekki hægt að fljúga beint til Norðurlandanna en Icelandair flýgur frá Keflavík til níu norrænna flugvalla og WOW air tveggja. Íslensku félögin eru því í sterkri stöðu þegar kemur að ferðum á milli Norðurlandanna og Montreal en vissulega geta farþegar á þeirri leið einnig valið að fljúga með Air France, KLM, British Airways og Lufthansa og millilenda á meginlandi Evrópu í staðinn fyrir hér á Íslandi. Verðið mun því væntanlega ráða för margra.

Kanadamenn hljóðir

Stephanie Lepage, upplýsingafulltrúi Montreal-Trudeau flugvallar, staðfestir í svari til Túrista að viðræður séu í gangi við bæði Icelandair og WOW air en vill að öðru leyti ekki tjá sig um þennan mikla áhuga íslenskra flugfélaga á borginni eða möguleika þeirra tveggja að ná þar fótfestu.

Meira Frakklandsflug í framhaldinu?

Montreal er í hinu frönskumælandi Quebec fylki og boðið er upp á beint flug þaðan til sjö franskra borga en þó aðallega yfir sumartímann. Það er því greinilega stór markaður fyrir Frakklandsferðir frá Montreal og kannski verða nýir franskir áfangastaðir hluti af sókn íslensku félaganna í frönskumælandi Kanada. Í dag fljúga bæði íslensku flugfélögin til Parísar en WOW air býður einnig upp á flug til Lyon yfir ferðamannatímabilið.